Sport

Annríki á Skaganum

Skagamenn buðu til blaðamannafundar í húsakynnum KB-banka í Borgartúni í gær þar sem skrifað var undir samning við ellefu leikmenn og tvo þjálfara. Stærsta fréttin er vitanlega sú að Ólafur Þórðarson ákvað að framlengja samning sinn um heil þrjú ár, til 2008, en hann tók við ÍA haustið 1999. Þá hafði hann þjálfað lið Fylkis í tvö ár og var þrálátlega orðaður sem arftaki Þorláks Árnasonar hjá Árbæingum. Ekkert varð af því þar sem Ólafi rann blóðið til skyldunnar."Vissulega skoðaði ég aðra möguleika og þetta togaði á í manni, hvort það væri kominn tími til að breyta til," sagði Ólafur við Fréttablaðið í gær. "Það var lagt hart að mér að halda áfram þannig að ég ákvað að slá til og leggja mitt af mörkum til að leiða þetta félag á toppinn aftur." Þórður Þórðarson fyrrverandi markvörður Skagamanna verður aðstoðarþjálfari Ólafar ásamt því að vera markmannsþjálfari liðsins. Þórður neyddist til að leggja skóna á hilluna eftir aðeins einn leik í vor vegna veikinda. Í kjölfar ákvað hann að rifta leikmannasamningi sínum við félagið þó svo að honum bæri engin skylda til þess. Í gær skrifaði hann hins vegar undir þjálfarasamning. Reynir Leósson skrifaði þar að auki undir tveggja ára samning við ÍA en búist var við að hann yrði ekki áfram hjá Skagamönnum. Félagi hans í vörninni, Gunnlaugur Jónsson, er einnig með lausan samning hjá ÍA og er ætlar að hugsa sín mál að mótinu loknu. Hann hefur búið í Reykjavík undanfarin sex ár og gæti því vel hugsað sér að ganga til liðs við félag í bænum til að spara sér bensíndropana. Samningur Kára Steins Reynissonar við ÍA rennur einnig út í haust.Þá skrifuðu tíu ungir leikmenn ÍA, sem eru ýmist nýkomnir upp í meistaraflokk eða spila enn í 2. eða 3. flokki félagsins, undir samninga sína í gær við ÍA, allir til þriggja ára nema einn sem samdi til tveggja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×