Viðskipti innlent

Sigurjón kaupir fasteignafélag

Fasteignafélag í eigu Sigurjóns Sighvatssonar mun ef samningar nást þar um kaupa meirihluta í dönsku fasteignafélagi sem á um 150 íbúðir, verslunar- og skrifstofuhúsnæði og byggingarland í Kaupmannahöfn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Sigurjón nú í Kaupmannahöfn þar sem viðræður vegna kaupanna eru á lokastigi en gert er ráð fyrir því að gengið verði endanlega frá þeim um helgina. Danska félagi, sem er í eigu einstaklinga, er metið á um átta milljarða íslenskra króna og er ekki skráð á markað. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru það Íslandsbanki í Luxemborg og Íslandsbanki hér heima sem vinna að fjárfestingunni með Sigurjóni en félag Sigurjóns og fjölskyldu hans, Heimiliskaup ehf., mun fjárfesta í danska félaginu. Eignir danska félagsins eru einkum í hjarta Kaupmannahafnar. Íslendingar hafa að undanförnu verið umsvifamiklir í Kaupmannahöfn og er skemmst að minnast kaupanna á verslunarmiðstöðvunum Magasin Du Nord og Illums auk Merlin-raftækjaverslananna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×