Viðskipti innlent

Síminn lánaði til hlutabréfakaupa

"Skuld SkjásEins við Símann var til komin vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar í þeim tilgangi að efla fjárhag sjónvarpsstöðvarinnar fyrir þau verkefni sem við erum að vinna og þau verkefni sem framundan eru," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans Að auki segir Brynjólfur að Íslenska sjónvarpsfélagið hafi fengið fé að láni til að kaupa aðra hluthafa út úr félaginu. Stjórn Símans tók þá ákvörðun í júní síðastliðnum að breyta 750 milljóna króna skuld SkjásEins við Símann í hlutafé. Brynjólfur segir rétt, sem kom fram í viðskiptablaði Fréttablaðsins í gær, að Síminn ráði nú yfir nánast öllu hlutafé Íslenska sjónvarpsfélagsins, sem rekur SkjáEinn. Í fyrra keypti Síminn félag sem átti um helmingshlut í SkjáEinum á 96 milljónir króna. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs keypti Síminn í öðru félagi sem átti í SkjáEinum og beint í sjálfri sjónvarpsstöðinni fyrir 89 milljónir króna. Samkvæmt reikningum Símans réð fyrirtækið yfir tæpum 77 prósentum hlutafjár í SkjáEinum á þessum tímapunkti. Samkvæmt þessu keypti Síminn 77 prósent hlutafjár í SkjáEinum fyrir 185 milljónir króna. Skuldirnar voru meiri en eignirnar á þessum tíma samkvæmt efnahagsreikningi SkjásEins sem getur skýrt lágt verð en Brynjólfur vill ekkert tjá sig um þessa hlið málsins. Bein fjárútlát Símans vegna SkjásEins nema nú því 935 milljónum króna. Brynjólfur tekur fram að allar þessar upplýsingar hafi verið væntalegum kaupendum Símans kunnar áður en fyrirtækið var selt. Honum finnst eðlilegt að það sé tekið fram að Fréttablaðið er í eigu sömu aðila og eiga OgVodafone, sem er samkeppnisaðili Símans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×