Erlent

Fundað um landnemabyggðir

Ísraelska ríkisstjórnin situr nú á fundi til að ákveða hvort styðja eigi áætlanir Ariels Sharons forsætisráðherra um að loka landnemabyggðum gyðinga á Gaza-svæðinu, en það er eitt af mestu deilumálum Palestínumanna og Ísraela. Á Gaza-svæðinu búa um átta þúsund gyðingar innan um eina og hálfa milljón Palestínumanna undir öflugri hervernd ísraelskra hersveita. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur barist fyrir stuðningi við áætlanir sínar um að þessar landnemabyggðir verði lagðar niður. Hann hefur þurft að reka ráðherra úr ríkisstjórn sinni vegna málsins og nú síðast myndaði hann nýja stjórn með Verkamannaflokknum til að tryggja að áætlanirnar nái fram að ganga. Áætlanirnar fela í sér að í staðinn fyrir brottflutning gyðinga frá Gaza-svæðinu verði landtökusvæði á vesturbakka Jórdanár innlimað í Ísraelsríki. Áætlanirnar eru ákaflega mikilvægar varðandi friðarhorfur þar sem landnemabyggðirnar hafa verið þyrnir í augum Palestínumanna og ítrekað hefur komið til átaka á svæðinu. Búist er við að ríkisstjórnin samþykki áætlunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×