Sport

Kasparov barinn með taflborði

Fyrrverandi heimsmeistari í skák og með þeim frægari í bransanum fyrr og síðar, Garry Kasparov, var sleginn í höfuðið með taflborði á föstudag. Atvikið átti sér stað á samkomu í Moskvu þegar hinn 41 árs gamli skákmeistari hafði áritað taflborðið fyrir ungan "aðdáanda". Hann var nýbúinn að árita taflborðið þegar maðurinn tók sig til og barði hann í höfuðið með því. Hann reyndi að sögn viðstaddra að berja Kasparov aftur en þá gripu öryggisverðir inn í og leiddu manninn á brott. "Ég dáði þig sem skákmaður en þú gafst það upp á bátinn fyrir pólitík." er haft eftir árásarmanninum sem ekki er nafngreindur en hann lét þau orð falla eftir að hafa slegið Kasparov með taflborðinu. Ekki er vitað hvort ungi maðurinn tilheyri einhverjum pólitískum öflum en Kasparov er í hópi manna sem vilja koma Vladimír Pútín frá völdum og telja hann hamla lýðræðisþróun í Rússlandi. Kasparov hefur verið efstur á styrkleikalista skákheimsins síðan 1984 en hætti formlega skákiðkun sinni í síðasta mánuði til að einbeita sér að pólitíkinni. Kasparov var þo nokkuð brugðið eftir árásina sem hefur vakið heimsathygli en hann hefur þó ekki misst húmorinn. "Það var eins gott að ég er ekki hafnarboltahetja. Ég veit ekki hvort ég væri hérna ennþá hefði ég fengið kylfu í höfuðið" sagði hinn síkáti skáksnillingur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×