Erlent

Blair víki á næsta kjörtímabili

MYND/AP
Enginn annar kemur til greina sem eftirmaður Tonys Blairs en Gordon Brown, og Blair ætlar að víkja fyrir honum á næsta kjörtímabili. Þetta fullyrða breskir fjölmiðlar í dag.  Það hafa lengi gengið sögusagnir þess efnis að Tony Blair myndi ekki sitja út þriðja kjörtímabilið beri Verkamannaflokkurinn sigur úr býtum í kosningunum í vor. Hermt er að samkomulagið á milli þeirra Gordons Browns hafi jafnvel verið slæmt á tímabili þar sem Brown var á því að tímabært væri að Blair hyrfi af forsætisráðherrastóli og að hann tæki við. Undanfarna daga hefur Blair margítrekað að hann muni sitja út næsta kjörtímabil verði úrslit kosninganna eins og kannanir benda til. Dagblaðið Independent segir í dag að það sé af og frá að Blair verði enn forsætisráðherra fyrir næstu kosningar. Þvert á móti sé alkunna innan Verkamannaflokksins að Blair muni víkja úr embætti, að líkindum eftir tvö ár eða svo. Blaðið segir að Blair sé þetta ljóst og að hann hafi nú greint Brown frá því að enginn annar komi til greina sem eftirmaður. Blair hafi falið Alastair Campbell, fyrrverandi talsmanni sínum, að semja við samstarfsmenn Browns um valdaskiptin. Meðal þess sem þar er samið um er samsetning næstu ríkisstjórnar, en Brown ku leggja á það áherslu að samverkamenn hans séu þar áberandi. Independent segir að völdin innan flokksins færist nú þegar í vaxandi mæli í hendur Brown og að öllum sé ljóst að Blair sé ekki vært í embætti mjög lengi jafnvel þó svo færi að Verkamannaflokkurinn ynni stórsigur. Blair gæti ekki eignað sér heiðurinn af því þar sem kannanir bendi eindregið til þess að fylgi flokksins væri töluvert meira leiddi Brown hann. Ljóst sé að nú sé málum svo komið að Blair sé nánast orðinn dragbítur fyrir Verkamannaflokkinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×