Sport

FH með sex stiga forystu

FH náði í gærkvöldi sex stiga forystu í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. FH-ingar unnu Skagamenn 2-0 í Hafnarfirði þar sem Tryggvi Guðmundsson og Allan Borgvardt skoruðu mörkin. Þetta var áttunda mark Tryggva. FH hefur unnið alla sjö leiki sína og er með 21 stig en Valur er í öðru sæti með 15. Valsmenn biðu lægri hlut fyrir Vestmannaeyingum í Eyjum. Steingrímur Jóhannesson skoraði eina mark leiksins. Keflavík og Fylkir gerðu 2-2 jafntefli. Keflvíkingar náðu forystu þegar Fylkismenn skoruðu sjálfsmark. Hrafnkell Helgason jafnaði metin fyrir Fylki en Stefán Örn Arnarsson endurheimti forystu Keflvíkinga áður en sænski framherjinn Christian Christiansen jafnaði metin. Fylkir og Keflavík eru í 3 og 4. sæti með 11 stig en KR-ingar eru stigi á eftir í 5. sæti. KR vann Þrótt 3-2 þar sem Grétar Ólafur Hjartarson skoraði sigurmarkið. KR komst í 2-0 með mörkum Rógva Jakobsen og Sigurvins Ólafssonar en Þróttur jafnaði metin, Þórarinn Kristjánsson og Jozef Maruniak skoruðu. Sigurmark Grétars Ólafs kom 5 mínútum fyrir leikslok. Grindavík vann Fram 1-0. Sinisa Kekic skoraði markið. Þróttur er nú í neðsta sæti deildarinnar með 4 stig en þar fyrir ofan eru ÍBV með 6 og ÍA og Grindavík með 7 stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×