Sport

FIFA rannsaki leik á HM 1990

Sebastiao Lazaroni, fyrrverandi landsliðsþjálfari Brasilíu í knattspyrnu, hefur óskað eftir því að Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, rannsaki atvik í leik Brasilíumanna og Argentínumanna á heimsmeistaramótinu 1990. Í seinni hálfleik stöðvaði dómarinn leikinn og nokkrir leikmenn notuðu tækifærið og fengu sér vatn að drekka. Brasilíski varnarmaðurinn Branco þáði vatnssopa frá argentínskum leikmanni og sá brasilíski fullyrti eftir leik að sér hefði orðið illt í maganum og að hann hefði fengið svimaköst. Í nýútkomnu argentínsku tímariti er Carlos Bilardo sem stýrði liði Argentínumanna spurður að því hvort Branco hafi verið gefinn göróttur drykkur. Í tímaritsviðtalinu neitar hann þessu ekki og nú hefur Lazaroni óskað eftir því að málið verði rannsakað. Argentínumenn unnu leikinn 1-0 en biðu lægri hlut í úrslitaleik fyrir Vestur-Þjóðverjum, 1-0.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×