Erlent

Rice ver stefnuna í hryðjuverkavörnum

Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna flytur ávarp sitt á Andrews-herflugvellinum fyrir utan Washington í gær áður en hún lagði upp í Evrópuför sína.
Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna flytur ávarp sitt á Andrews-herflugvellinum fyrir utan Washington í gær áður en hún lagði upp í Evrópuför sína.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf í gær skýrustu svörin sem fengist hafa til þessa frá bandarískum stjórnvöldum við ásökunum um vafasama meðferð fanga sem grunaðir væru um að vera hryðjuverkamenn.

Sagði hún að allt sem bandarísk yfirvöld aðhefðust í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum væri innan marka laganna og gaf sterklega til kynna að leyniþjónustur evrópskra bandamanna ættu í nánu samstarfi við bandarísku leyniþjónustuna CIA.

Í yfirlýsingu sem hún las er hún lagði upp í ferð til nokkurra höfuðborga í Evrópu í gær sagði hún ekkert um það sem marga í Evrópu fýsir mest að fá svör við, það er hvort CIA reki leynifangelsi í Austur-Evrópu. "Við getum ekki rætt opinberlega upplýsingar sem gætu spillt fyrir leyniþjónustustarfi, lögreglu- eða hernaðaraðgerðum. Við ætlumst til að aðrar þjóðir deili þessari sýn með okkur," sagði Rice.

Rice sagði að Bandaríkin myndu beita hvaða löglega vopni sem er til að ráða niðurlögum þessara hryðjuverkamanna. Hún lagði á það áherslu að Bandaríkjastjórn heimilaði ekki né liði að pyntingum væri beitt undir neinum kringumstæðum.

Frásagnir í fjölmiðlum af meintum leynifangelsum og leynilegu fangaflugi á vegum CIA fram og aftur um evrópska lofthelgi og flugvelli hafa valdið miklu írafári í mörgum löndum Evrópu og hefur verið kallað á skýringar. Bæði hafa stjórnvöld í viðkomandi Evrópuríkjum og Evrópusambandið farið fram á svör frá Bandaríkjastjórn.

Þýska höfuðborgin Berlín er fyrsti viðkomustaður Rice í Evrópuförinni. Þar sagði talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, Uwe Wilhelm, að hann hefði undir höndum skrá yfir vel á fimmta hundrað tilvika þar sem flugvélar sem taldar væru á vegum CIA hefðu flogið um þýska lofthelgi eða lent á flugvöllum í landinu.

Hann tjáði fréttamönnum að hann vonaðist til að allar staðreyndir málsins yrðu ræddar á fundi Rice og Angelu Merkel kanslara.

Í yfirlýsingunni fyrir brottförina sagði Rice að Bandaríkin virtu fullveldi annarra landa sem hafa tekið þátt í samstarfi um þessi mál, en þetta samstarf hefði hjálpað til við að vernda líf borgara bæði Bandaríkjanna og landa í Evrópu og víðar.

Vísunina til fullveldis má skilja þannig að ef eitthvert Evrópuríki skyldi hafa lagt til aðstöðu undir leynifangelsi þá hefði það gerst með vitund og vilja þarlendra stjórnvalda. Rice tók fram að það væri undir stjórnvöldum í þessum löndum komið að ákveða hversu mikið af viðkvæmum upplýsingum þau geta birt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×