Erlent

Ástandið ekki verra í áratug

Óeirðir héldu áfram í Belfast í gærkvöldi og í morgun, þriðja daginn í röð. Tæpur áratugur er síðan annað eins ástand hefur skapast þar, en fimmtíu lögreglumenn liggja sárir eftir átök helgarinnar. Átökin brutust út síðdegis á laugardag þegar lögreglan meinaði göngumönnum Óraníureglunnar að marsera um götur sem liggja nærri kaþólskum hverfum í Belfast. Í kjölfar þess réðust mótmælendur á lögreglumenn með öllu því sem tiltækt var, heimagerðum sprengjum, flöskum fullum af bensíni, múrsteinum og hverju því sem hönd á festi. Þetta breiddist út um borgina þar til stór hluti borgarinnar logaði í óeirðum. Lögregla segir ekki fara milli mála að herskáir hópar öfgamanna hafi haft hönd í bagga við að skipuleggja aðgerðirnar, og hafi aðeins beðið eftir átyllu til að hefja ofbeldisverkin og draga aðra með sér í þau. Stríðsástand hefur beinlínis ríkt í sumum hverfum. Michael Copeland sambandssinni sagði að ástandið hefði breyst á tíu til fimmtán mínútna fresti. Þetta hefði nálgast stjórnleysi og eyðileggingin hefði blasað við hvarvetna. Óeirðirnar eru nokkuð áfall fyrir friðarferlið á Norður-Írlandi. Flestir héldu að svona nokkuð heyrði fortíðinni til. Þótt slegið hafi í brýnu öðru hverju þá hafa svona langvinn og blóðug átök ekki átt sér stað í tæpan áratug. Það er þó greinilegt að undir niðri kraumar mikil óánægja meðal sambandssinna, sem ekki þarf mikið til að virkja. Yfirvöld leggja því allt kapp á að góma þá sem bera ábyrgð á látunum. Peter Hain, Norður-Írlandsmálaráðherra Bretlands, sagði að þeir yrðu að svara til saka og að hann styddi lögregluna í öllum þeim aðgerðum sem hún gripi til í þeim tilgangi. Hain sagðist telja að öllum, allt frá leiðtogum sambandssinna til venjulegra íbúa í hverfum sambandssinna, blöskraði hvernig vopnaðir flokkar höguðu sér eins og glæpamenn og reyndu að drepa, limlesta og ráðast á lögreglu sem hefði staðið sig frábærlega. Enn ríkir mikil spenna í borginni og var jafnvel búist við að mótmælendur létu enn til sín taka í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×