Sport

Spretturinn kemur of seint

KRingar unnu góðan sigur á Valsmönnum á KR-velli í gær, en hann var sá fjórði í röð undir stjórn Sigursteins Gíslasonar sem hefur náð góðum árangri með liðið síðan hann tók við af Magnúsi Gylfasyni á dögunum. Leikurinn á KR-velli í gær var nokkuð skemmtilegur og hugsanlega sá besti sem þar hefur verið spilaður í sumar. Bæði lið sýndu metnað til þess að sækja og fyrir vikið litu mörg úrvalsfæri dagsins ljós. KR nýtti aftur á móti sín færi og þar lá munurinn á liðunum að þessu sinni.Valsmenn voru ívið grimmari og ákveðnari framan af fyrri hálfleiknum. Garðar Gunnlaugsson og Guðmundur Benediktsson komust báðir nærri því að skora en höfðu ekki heppnina með sér. Það var því örlítið kjaftshögg þegar Grétar Ólafur skoraði glæsimark með skoti fyrir utan teig en það kom nokkuð gegn gangi leiksins. Síðari hálfleikur var mjög líflegur og mikið gekk á. Bæði lið sköpuðu sér fín færi í hálfleiknum en enginn fékk betri eða fleiri færi en Garðar Gunnlaugsson en honum var algjörlega fyrirmunað að koma boltanum í netið. Trekk í trekk stóð hann einn gegn opnu marki KR en hann lét annað hvort Kristján verja eða skaut yfir markið.Grétar kórónaði síðan góðan leik sinn í uppbótartíma þegar hann kláraði stórglæsilega sókn KR með þrumuskoti. Rógvi Jacobsen á reyndar stóran hluta í markinu enda var stoðsending hans til Grétars stórglæsileg.Fjórði sigur KR í röð því staðreynd og örugglega var það skrítið fyrir þjálfarann, Sigurstein, að heyra að KR hefði ráðið annan mann í starfið en Sigursteinn mun verða Teiti til aðstoðar. Stjórnarmenn KR hljóta aftur að móti að naga sig í handarbökin fyrir að hafa ekki rekið Magnús Gylfason fyrr úr starfi því allt annar bragur hefur verið á liðinu síðan Magnús hvarf úr brúnni og Sigursteinn hefur náð að láta liðið spila þann bolta sem það á klárlega að gera í hverjum leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×