Innlent

Íslenskri konu vísað úr sænskum strætó

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Umfjöllun í Svíþjóð Í september lenti Rut í fyrsta sinn í því að vera vísað úr strætó með aðstoðarmanni sínum og þá var fjallað um málið í héraðsfréttablaðinu.
Umfjöllun í Svíþjóð Í september lenti Rut í fyrsta sinn í því að vera vísað úr strætó með aðstoðarmanni sínum og þá var fjallað um málið í héraðsfréttablaðinu.
Rut Sverrisdóttur, sjón­skertri konu sem býr í Bromölla á Skáni í Suður-Svíþjóð, var þar vísað út úr strætisvagni í bænum Hässleholm með lögregluvaldi seint á föstudagskvöld. Kona sem keyrði vagninn neitaði að halda áfram þegar Rut stóð á rétti sínum og neitaði að borga undir að­stoð­ar­mann sinn. Á Skáni eiga aðstoðarmenn blindra og sjónskertra að fá með þeim ókeypis far í almenn­ings­vögnum.

 Úr varð heilmikil uppákoma þar sem vagnsstjórinn neitaði að aka af stað nema aðstoðarmaðurinn borgaði. Voru aðrir farþegar farnir að hreyta ónotum í Rut en hún var einnig með ársgamlan son sinn með í för. "Svo var þetta nálægt klukkan hálf tólf um kvöld niðri í miðbæ og þar langaði mig ekki að vera á ferðinni með barnið innan um fólk að drekka," segir hún. Eftir um tuttugu mín­út­na þóf kom svo lögreglan, þeim var öllum vísað frá borði og tóku leigubíl heim.

"Ég átti aldrei von á því að þetta myndi vekja svona mikla at­hygli," segir Rut, en fjallað var um upp­á­komuna í héraðs­frétta­blöð­um og -sjónvarpi á Skáni og í aðal­frétta­tíma Sænska rík­is­sjón­varps­­ins síðasta sunnu­­dags­kvöld. "Þetta var heil­mikil út­tekt, frétt­in var heil­ar fjór­ar mín­útur."

Rut segir þetta vera í annað sinn sem hún lendi í svona stappi við vagnstjóra, en í september var lögregla einnig kvödd til þegar það sama gerðist. Í þetta sinn ákváðu Rut og aðstoðarmaður hennar hins vegar að vekja athygli á málinu og sendu staðarblaðinu bréf.

"Ég var ekki bara að standa á rétti mínum heldur á ég fimm ára gamla sjónskerta stelpu sem þarf á þessari þjónustu að halda þegar hún verður eldri. En það er ekki skemmtilegt að standa í þessu."

Vagnsstjórinn hefur eftir að mál­ið kom upp feng­ið áminn­ingu í starfi, segir Rut, og hún feng­ið afsökun­ar­beið­ni frá um­sjónar­manni almennings­samgang­na á Skáni.

Rut flutti til Svíþjóðar um mitt ár 2004 með manni sínum Bjarka og Helgu dóttur þeirra. "Ég er hálfgerður flóttamaður frá Íslandi," gantast hún og kveð­st hafa verið nauð­beygð að flytja því fjölskyldan fái ekki þá þjónustu heima sem hún þarf á að halda. Áður bjuggu þau á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×