Viðskipti innlent

Önnur atlaga að Whittard

Vilja kaupa sælkerakeðju. Baugur og Pálmi Haraldsson eiga í viðræðum við stjórn Whittard of Chelsea um yfirtöku.
Vilja kaupa sælkerakeðju. Baugur og Pálmi Haraldsson eiga í viðræðum við stjórn Whittard of Chelsea um yfirtöku.

Te- og kaffikeðjan hefur fallið hratt niður á árinu. Baugur Group og Pálmi Haraldsson stefna að því að gera yfirtökutilboð í Whittard of Chelsea eins og Markaðurinn greindi frá í gær. Ef af kaupunum verður hyggjast fjárfestarnir sameina rekstur Whittard við sælkerakeðjuna Julian Graves sem er í eigu sömu aðila.

Fastlega er búist við að yfirtökuverðið verði á bilinu 85-95 pens sem þýðir að að markaðsvirði félagsins er rétt um 2,3 milljarðar króna. Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem fjárfestarnir reyna að komast yfir Whittard. Í júlí tilkynnti stjórn Whittards að hún ætti í viðræðum við nokkra aðila um yfirtöku á verslunarkeðjunni en þær fóru út um þúfur. Baugur mun hafa verið einn þessara aðila. Whittard stendur á gömlum merg en fyrirtækið var stofnað árið 1865. Það hefur átt undir högg að sækja eftir spreningarnar í London í júlí en þær höfðu neikvæð áhrif á breska smásöluverslun. Gengi bréfa í Whittard hefur lækkað mikið á þessu ári, meðal annars vegna sölusamdráttar. Í upphafi var gengi bréfanna um 190 pens á hlut en standa nú í 90 pensum. Fimmtungur 126 verslana Whittard eru staðsettar í London. Verslunarkeðjan sérhæfir sig í sölu á kaffi og tei sem og sælkeravarningi. Franski bankinn Credit Agricole Cheuvreux, sem var þriðji stærsti hluthafinn í Whittard, seldi nær öll bréf sín í fyrradag eftir að fréttir bárust af yfirtökuviðræðunum. Ekki er talið að Baugur og Pálmi standi á bakvið þessi viðskipti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×