Erlent

Nazarbayev gersigraði í forsetakosningunum

Sigurviss. Nursultan Nazarbayev var sagður svo öruggur um sigur að fyrir helgi boðaði hann til sigurhátíðar með stuðningsmönnum sínum sem haldin verður í dag, rétt eftir að opinber úrslit verða kunngjörð.
Sigurviss. Nursultan Nazarbayev var sagður svo öruggur um sigur að fyrir helgi boðaði hann til sigurhátíðar með stuðningsmönnum sínum sem haldin verður í dag, rétt eftir að opinber úrslit verða kunngjörð.

Nursultan Nazarbayev, forseti Kasakstan, fékk í það minnsta 75 prósent atkvæða í forsetakosningum í landinu í gær. Kjörfundurinn virðist hafa gengið að mestu hnökralaust fyrir sig en Öryggissamvinnustofnun Evrópu ÖSE mun kveða upp sinn dóm í dag.

Fimmtán milljónir manna búa í Kasakstan og er talið að 75 prósent atkvæðisbærra manna hafi nýtt sér kosningarétt sinn. Almennt var búist við að Nazarbayev yrði endurkjörinn til næstu sjö ára en hann hefur verið forseti landsins síðan árið 1989, á meðan Kasakstan var ennþá hluti Sovétríkjanna.

Fjórar útgönguspár sem birtar voru á miðnætti að staðartíma sýndu að Nazarbayev fékk allt frá 75 prósentum atkvæða upp í ríflega áttatíu prósent. Helsti andstæðingur hans, Zharmakhan Tuyakbai, virðist hins vegar aðeins hafa fengið tíu prósent.

Í aðdraganda kosninganna kvört­uðu mótframbjóðendur forsetans yfir því að bæklingum og auglýsingum þeirra hefði verið stolið og dagblöðum þeim hliðholl hefði verið lokað. Onalsyn Zhumabekov, formaður landskjörstjórnar, lýsti því hins vegar yfir strax að loknum kjörfundi í gær að öll skilyrði hefðu verið uppfyllt við framkvæmd kosninganna.

Kosningaeftirlitsmenn Samveldis sjálfstæðra ríkja, sem í eru flest lýðveldi fyrrum Sovétríkjanna, tóku í svipaðan streng og sögðu að svo virtist sem kosningarnar hefðu farið heiðarlega fram. Skýrsla kosningaeftirlitsmanna ÖSE um kjörfundinn og aðdraganda hans verður birt í dag.

Kasakstan er talið hafa vegnað best af þeim fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna sem eru í Mið-Asíu en landið er auðugt af olíu. Nazarbayev hefur í valdatíð sinni haldið uppi vingjarnlegum samskiptum við stjórnvöld í Moskvu, Washington og Peking og starfar til dæmis lítil kasöksk herdeild með fjölþjóðlega herliðinu í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×