Skoðun

Hannes og andlega spektin

Hannes Gissurarson, sem hefur mátt þola að listinn yfir villur í bók sem hann skrifaði slagaði upp í að vera álíka langur og bókin sjálf, sakar mig um ónákvæmni í grein hér í Fréttablaðinu í gær. Hann hefur nefnilega fundið staðreyndavillur í Jónsbók, og það skýrir kannski margt að það fyrsta sem hann nefnir og rekur ofan í mig er alls ekki í bókinni.

Það er raunar kærkomið að fá að koma þessu að; Jóni Ólafssyni varð það á í messunni á blaðamannafundi að láta orð falla sem menn skildu sem svo að hann væri að saka skatt­rannsóknarstjóra, stakan bind­indis­mann til áratuga, um að hafa sagt eitthvað á fylliríi, og hafa fleiri en Hannes orðið til að segja að þetta "rýri trúverðugleika Jónsbókar".

En vel að merkja er ekkert um þetta í bókinni; þar er ekki eitt orð um áfengismál skattrannsóknarstjóra. Hannes segir einnig hafa verið rekið ofan í mig að Davíð Oddsson hafi talað um Jón Ólafsson í afmælisveislu fyrir sex árum. Öfugt við Hannes þá var ég í veislunni og hló með öðrum gestum þegar Davíð, sem þá hafði í um það bil viku fimbulfambað í öllum fjölmiðlum um kaup Jóns Ólafssonar á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sagði eitthvað á þá leið að eiginlega hefði hann átt að lesa hér upp ljóð Þórarins Eldjárns: "Jón Ólafsson slysast". Sem vissulega fjallar um Jón Indíafara, en Davíð er gefin sú list að kunna að tala undir rós þannig að allir skilji, nema þeir einir sem eru gersneyddir öllum húmor; í gömlum íslenskum bókum er talað um þá sem skilji allt jarðlegum skilningi og sagt að þeim hafi ekki verið gefin andlega spektin, en það hef ég hingað til ekki talið eiga við Hannes Hólmstein.

Annað sem Hannes nefnir er svo smávægilegt að það er ekki eyðandi að því orðum; á einum stað í bókinni stendur að 5. júlí '72 hafi Jón enn verið sextán ára, en þar átti að standa að hann hafi enn verið sautján ára; vantaði rúman mánuð í átján ára afmælið. Þessa villu var Hannes með á skilti á blaðamannafundinum sínum, eins og þeir sáu sem fylgdust með honum á NFS, og hún var líka tiltekin sem dæmi um trúverðugleikaskort Jónsbókar í klausu í "Blaðinu" fyrir nokkrum dögum.

Villur af þessu tagi þykja lúmskar, fara gjarnan framhjá nákvæmustu yfirlesurum; eru reyndar kallaðar gagnsæjar því að fæðingardagur Jóns er tiltekinn á fyrstu síðu bókarinnar; reikningssnjallir menn sjá að hann var sautján en ekki sextán.

Hannes kveinkaði sér undan því í Morgunblaðinu í liðnum mánuði að ég hefði vitnað í samræður okkar tveggja á kaffi­stofu Þjóðarbókhlöðunnar án hans leyfis. Vissulega er það ekki til eftirbreytni, en var hugsað af minni hálfu sem góðlátleg stríðni við Hannes, sem frægur varð fyrir að vitna á prenti í óformlegt spjall á sömu kaffistofu.

Og vel að merkja var það sem ég hef eftir Hannesi ekki hugsað til að gera lítið úr honum heldur þvert á móti; tilvitnuð orð hans eru fyndin og fróðleg. Hannes hefur sagt um Jónsbók að hana hafi ég "tekið saman á vegum Jóns Ólafssonar". Ég veit ekki alveg hvað hann á við með því; bókina skrifaði ég einfaldlega eða samdi, rétt eins og aðrar mínar bækur, og rétt eins og Hannes skrifar sínar, meðal annars þessa nýju um "Kiljan" - sem ég hef annars hugsað mér að lesa áður en ég úttala mig um hana frekar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×