Erlent

Leynifangelsi verða könnuð

Franco Frattini. ESB hótar að svipta þau ríki sem heimilað hafa rekstur leynifangelsa atkvæðisrétti.
Franco Frattini. ESB hótar að svipta þau ríki sem heimilað hafa rekstur leynifangelsa atkvæðisrétti.

Þótt Bandaríkjastjórn hafi ekki enn viðurkennt að hún starfræki leynileg fangelsi erlendis þar sem grunaðir hryðjuverkamenn eru geymdir segist hún hafa meðtekið þau hörðu viðbrögð sem málið hefur vakið.

"Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ekki brotið landslög með aðgerðum sínum. Þær eru allar í samræmi við stjórnarskrána og við förum eftir þeim alþjóðaskuldbindingum sem við eigum aðild að," segir Sean McCormack, formælandi utanríkisráðuneytisins.

Ásakanir um að bandaríska leyniþjónustan CIA reki leynifangelsi í Evrópu hafa orðið til þess að fjölmörg lönd hafa kallað eftir skýringum. Evrópusambandið hefur sömuleiðis krafist útskýringa á málinu og hótaði Franco Frattini, yfirmaður dóms- og löggæslumála í framkvæmdastjórn þess, í vikunni að þau aðildarríki sem uppvís hefðu orðið að því að heimila rekstur slíkra stofnana yrðu svipt atkvæðisrétti í stofnunum ESB.

CIA hefur ekkert tjáð sig um málið og hvorki Hvíta húsið né utanríkisráðuneytið hafa staðfest sannleiksgildi ásakananna. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun í næstu viku hitta Frank-Walter Steinmeier, þýskan starfsbróður sinn, og er búist við að fangelsin verði þar ofarlega á baugi.

"Við gerum okkur grein fyrir að við þessu verður að bregðast og Evrópusambandið mun fá svör," bætti McCormack við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×