Skoðun

Vitundarvakning í umhverfismálum

Líklega hafa ýmsir vaknað til vitundar um mengandi áhrif umferðar á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Í fréttum var frá því sagt að magn tiltekinna efna hefði verið meira en góðu hófi gegndi og að á slíkum þurrum og köldum vetrardögum færi mengun frá útblæstri bifreiða og svifryk frá umferð yfir hámörk sem sett eru til verndar heilsu manna. Síðan fór að blása, en vindurinn blæs þessu að mestu á haf út - og lengi tekur víst sjórinn við.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur vakið athygli á loftmengun og fleiru með kynningarátaki í haust. Það liggja fyrir upplýsingar um mengun og bent hefur verið á leiðir til úrbóta. Eitt er vistvænn (mjúkur) akstur, annað betra skipulag ferða (engir óþarfir skreppitúrar) og þriðja notkun strætó, reiðhjóla eða tveggja jafnfljótra fyrir þá sem það geta. Önnur atriði sem eru til athugunar er m.a. frekari takmörkun á notkun nagladekkja sem rífa upp malbikið og dreifa malbiksryki yfir umferðaræðar og nærliggjandi svæði. Svo þarf að huga að því hvernig við nýtum borgarlandið, en það er ótrúlegt að nær helmingur þess skuli fara undir umferðarmannvirki og tengd svæði.

Aðventan er kannski ekki besti tíminn til breytinga í þessum efnum, því þá þurfa allir óhindrað að komast ferða sinna til að lenda ekki í jólakettinum. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna að áramótin eru líklega sá tími þegar loftmengun er hvað mest vegna flugeldagleði landsmanna. Ég hef hingað til lagt minn skerf til þeirra hluta og stutt mitt íþróttafélag, sem aflar tekna með flugeldasölu, í leiðinni.

Um hver áramót togast á í mér annars vegar tryggðin við félagið og stráksleg gleðin við að framleiða sem mestan hávaða og læti og hins vegar nagandi samviska yfir þeirri mengun og sóðaskap sem þessu fylgir.

Til þessa hafa tryggðin við félagið og stráksskapurinn haft yfirhöndina, en samviskan sækir þó í sig veðrið eftir því sem aldurinn færist yfir. Kannski ég fái mér risatertu til að skjóta upp um áramótin og láti hana verða hina síðustu!

Höfundur er fulltrúi í umhverfisráði Reykjavíkurborgar og sækist eftir 3.sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×