Viðskipti innlent

Standa við verðmatið á Jarðborunum

Þórður Pálsson, forstöðumaður Greiningardeildar KB banka, vísar á bug gagnrýni Magnúsar Jónssonar, forstjóra Atorku Group, um að vinnubrögð bankans vegna greiningar á Jarðborunum hafi verið ófagleg. Hann segir eðlilegt að verð yfirtökutilboðs sé rætt og ekki sjálfgefið þótt einn vilji kaupa að annar vilji selja.

Hann kannast ekki við að það sé almenn venja að forsendur verðmats séu ræddar við stjórnendur félaga en í þessu tilviki hafi verið reynt að fá fundi með forsvarsmönnum Jarðborana sem ekki hafi tekist. Slíkt kemur hins vegar ekki í veg fyrir birtingu verðmatsins. Þórður bendir á að upplýsingar um hálfs milljarðs tekjusamdrátt Jarðborana vegna sölunnar á Einingarverksmiðjunni séu nýjar upplýsingar fyrir markaðsaðila.

Hann segir það ljóst vera að framlegð af verkum Einingarverksmiðjunnar hafi ekki verið mikil og bendir auk þess á að Jarðboranir hafi ekki uppfært eigin áætlanir um veltu á árinu eftir að salan fór fram. Má því áætla að salan sé jákvæð fyrir Jarðboranir og rennir enn styrkari stoðum undir verðmat KB banka.

Þórður nefnir að Jarðboranir séu hreint rekstrarfélag, sem fjárfestar geti keypt í eða selt að vild, en Atorka sé hins vegar fjárfestingarfélag sem hafi töluverðan hluta eigna sinna í óskráðum bréfum. Atorka hafi því eignasafn sem sé ógagnsætt og henti færri fjárfestum en Jarðboranir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×