Viðskipti innlent

Tímabundið skot

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að verðbólga á þessu ári verði 3,8 prósent. Verðbólgan muni hjaðna nokkuð á allra næstu mánuðum en hækka svo hressilega þegar líður á næsta ári, 2006.

"Reiknum við með um 6,4 prósent verðbólgu yfir næsta ár og 8,2 prósent verðbólgu yfir þarnæsta ár. Um er að ræða tímabundið verðbólguskot sem fylgir hápunkti og lokum þeirrar uppsveiflu sem við göngum nú í gegnum," segir í riti greiningardeildar um verðbólguhorfur. Segir að þensla og ójafnvægi einkenni hagkerfið. Það sjáist á miklum hagvexti, hverfandi atvinnuleysi, methalla í utanríkisviðskiptum og verðbólgu sem sé ofan þolmarka Seðlabankans.

Gengi krónunnar mun svo líklega lækka síðari hluta næsta árs. Ástæðan fyrir lækkandi verðbólgu nú er kólnun á fasteignamarkaði, lækkandi eldsneytisverð í heiminum, sterkt gengi krónunnar og svo útsölur sem hefjast eftir áramótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×