Viðskipti innlent

Krefst betri kynningar á viðskiptamódeli bankans

Hreiðar Már Sigurðsson segir mikið framboð bréfa skýra að mestu hækkaða ávöxtunarkröfu á skuldabréfum bankans í Evrópu. Hann segir bankann þurfa að skýra starfsemi sína betur fyrir fjárfestum.
Hreiðar Már Sigurðsson segir mikið framboð bréfa skýra að mestu hækkaða ávöxtunarkröfu á skuldabréfum bankans í Evrópu. Hann segir bankann þurfa að skýra starfsemi sína betur fyrir fjárfestum.

Forstjóri KB banka segir umræðuna óþægilega og bankann þurfa að kynna stefnu sína betur fyrir fjárfestum. "Það er erfitt fyrir okkur að átta okkur á því hvað kveikir þessa umræðu," segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka.

"Það er hins vegar að bæði við og íslensku bankarnir höfum gefið út mikið af skuldabréfum á Evrópumarkaði á árinu. Þannig að framboðið hefur verið mjög mikið. Það er örugglega ein ástæða þess að vaxtaálag á bréfum bankanna hefur verið að hækka, þó að menn leiti skýringa í greiningum einstakra banka, þá held ég að ástæðan sé fremur þessi að framboðið hefur verið mikið."

Það sem hratt umræðunni af stað var orðrómur um að bankinn hygðist kaupa fyrirtækið Compass. Stjórnendur bankans voru spurðir út í þennan orðróm og tjáðu sig ekki um hann frekar en annan orðróm um einstök viðskipti. Bankinn hefur hins vegar aldrei keypt að fullu neitt annað en önnur fjármálafyrirtæki og miðað við þá sögu er ólíklegt að orðrómurinn sé á rökum reistur.

Hreiðar Már segir að hins vegar þurfi bankinn líkast til að skýra sín sjónarmið betur. "Við erum alla daga að reyna að skýra út viðskiptamódel okkar, en það er ljóst að við þurfum að gera betur í því og ætlum okkur að gera það á næstu vikum." Hreiðar Már segist eiga von á því að álag á skuldabréfum bankans geti haldist hærra fram að áramótum, en á von á því að upp úr því fari álagið að lækka aftur. Meðal þess sem talið er til áhættuauka í starfsemi bankans er hversu hátt hlutfall fjármögnunar er sótt á markað fremur en með innlánum.

"Þetta er ein ástæðan fyrir því að við keyptum Singer og Friedlander, en með því tvöfölduðum við innlán bankans. Við sjáum að bankar beita mismunandi viðskipta­módelum og það eru stórir bankar sem sækja allt sitt fé á heildsölumarkað og aðrir sem byggja á innlánum. Almennt sjáum við hins vegar þá þróun að meirihluti fjármögnunar sé að koma af markaði. Innlán á mörkuðum eru í fæstum tilvikum að vaxa."

Hann segir að uppspretta sparnaðar sé í lífeyrissjóðum og tryggingafélögum sem ávaxta peninga sína á markaði frekar en í innlánum banka. Hreiðar segir þessa umræðu auðvitað ekki þægilega fyrir bankann. "Verkefni okkar er þá að kynna fyrir mönnum hvað við erum að gera."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×