Erlent

Ótti við fuglaflensuna vestan hafs en ekki austan

MYND/AP

Bandaríkjastjórn segir fuglaflensuna eina mestu ógn við líf og heilsu mannkynsins og vinnur nú að því að koma í veg fyrir faraldur í landinu. Heilbrigðisráðherrar Evrópusambandsins segja hættuna á faraldri hins vegar afar litla.

Vísindamenn í Bandaríkjunum segja hættuna á að flensuveiran stökkbreytist og berist á milli manna vera mjög mikla. Ríkisstjórn landsins vinnur nú að því að koma í veg fyrir faraldur í landinu og stefnir að því að rúmlega fjórar miljónir skammta af flensulyfjum verði til í Bandaríkjunum í lok ársins. Það er þó mun minna en Alþjóða heilbrigðisstofnunin leggur til en Bandaríkjamenn eru tæplega 300 milljónir talsins. Talsmaður Hvíta hússins segir að unnið sé að nýrri kynslóð bóluefnis sem sé öflugra en það bóluefni sem nú er til. Um 120 manns hafa sýkst af fuglaflensunni en þar af hafa 62 dáið.

Fuglaflensan hefur greinst í fimm Evrópuríkjum en heilbrigðisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hafa þó sagt að lítil hætta sé á að veiran verði að faraldri; vandamálið sé og verði aðallega í Asíu. Þá hafa yfirvöld í Kanada greint frá því að fuglaflensuveira af H5 stofni hafi fundist í yfir fjörutíu farfuglum þar í landi. Ekki er þó um mannskæðu veiruna H5N1 að ræða og segja stjórnvöld að engin hætta sé á ferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×