Erlent

Milljón Íranir hvöttu til eyðingar Ísraels

Grunnt á því góða. Rúm milljón Írana fyllti götur landsins í gær, hrópaði ókvæðisorð að Ísrael og Bandaríkjunum og brenndi fána. Í Líbanon og á Barein voru mótmælagöngur jafnframt haldnar en þar býr, rétt eins og í Íran, fjöldi sjía.
Grunnt á því góða. Rúm milljón Írana fyllti götur landsins í gær, hrópaði ókvæðisorð að Ísrael og Bandaríkjunum og brenndi fána. Í Líbanon og á Barein voru mótmælagöngur jafnframt haldnar en þar býr, rétt eins og í Íran, fjöldi sjía.

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sat fast við sinn keip í gær þegar hann ítrekaði orð sín um að Ísraelsríki bæri að eyða. Ísraelar eru æfir og vilja láta reka Írana úr Sameinuðu þjóðunum og Bandaríkjamenn segja málið sýna að koma verði í veg fyrir að Íranar komi sér upp kjarnavopnum.

Í gær var síðasti föstudagurinn í Ramadan, föstumánuði múslima, en á sínum tíma helgaði Khomeini erkiklerkur þann dag baráttunni fyrir frelsun Jerúsalem úr höndum gyðinga. Af því tilefni þusti rúm milljón Írana út á götur borga landsins og hrópaði ókvæðisorð að Ísrael, Bandaríkjunum og Vesturlöndum í heild sinni.

"Ísrael skal þurrkað út af kortinu," var letrað á fjölmörg mótmælaspjöld og víða voru ísraelskir fánar brenndir. Í Teheran, höfuðborg Írans, fór Ahmadinejad forseti fremstur í flokki göngumanna. Hann ítrekaði orð sín frá því á miðvikudaginn um að uppreisn Palestínumanna yrði að lokum til þess að Ísraelsríki yrði afmáð með öllu og vísaði á bug þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á þau. "Ég tala í nafni írönsku þjóðarinnar. Leiðtogum Vesturlanda er frjálst að tjá sig en orð þeirra skipta engu máli," sagði hann.

"Þeir móðgast þegar þeim er sagður sannleikurinn. Þeir halda að þeir ráði öllu í heiminum," bætti hann við. Óhætt er að segja að ummæli Ahmedinejads hafi vakið athygli. Ísraelar segja að vísa beri Írönunm úr Sameinuðu þjóðunum fyrir vikið og Bandaríkjamenn segja að málið sýni að ekki sé óhætt að treysta orðum Írana um að þeir hyggist einungis ætla að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Stjórnvöld í Moskvu kölluðu sendiherra Írans á sinn fund og kröfðu hann skýringa. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti andúð sinni á skoðun Írana en sjaldgæft er að hann taki svo ákveðna afstöðu.

Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna, fordæmdi ummælin í samtali við vefútgáfu BBC. "Palestínumenn viðurkenna tilvist Ísraelsríkis og ég vísa orðum hans á bug." Í Teheran reyndi klækjarefurinn Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseti, að bera klæði á vopnin með því að hvetja til að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin í Ísrael og á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna um framtíð þeirra síðarnefndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×