Skoðun

Kerfisáróður í Evrópumálum

Ísland og Evrópusambandið - Ingvar Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra Baldur Þórhallsson, kennari í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, kom fram í Kastljósi Sjónvarpsins 25. maí sl. Orðræðan snerist að verulegu leyti um afstöðu Íslendinga til Evrópubandalagsins og ástæður þess að ekki hefur enn komið til þess að Ísland sækti þar um fulla aðild. Málflutningur Baldurs var slíkur að orða- og hugtakanotkun sýndi býsna vel persónulega skoðun hans á Evrópumálum. Hann er augljóslega sambandsríkjasinni, evrópskur federalisti. Honum er það að sjálfsögðu frjálst. Hins vegar tekst honum ekki vel upp þegar hann tekur sér fyrir hendur að skýra afstöðu andstæðinga sinna í Evrópumálum, þess fólks sem kalla mætti fullveldissinna. Málflutningur hans er vísbending þess, sem við blasir, að rekinn er leynt og ljóst "kerfisáróður" fyrir þeirri skoðun að Íslendingum sé til hagsbóta að afsala sér (enn frekar en orðið er) fullveldi þjóðríkis síns. Baldur benti einkum á tvennt, sem veldur tregðu Íslendinga að ganga í Evrópubandalagið. Fyrri ástæðan á að vera sú að ýmsir "tengjast" sjávarútvegi (helst) eða landbúnaði og óttast um hag þessara atvinnugreina í miðstýrðu stjórnskipulagi fjölþjóðaríkis. M.ö.o. slíkir andstæðingar aðildar móta þá afstöðu sína af hagsmunaástæðum tiltekinna atvinnugreina. Þessi afstaða er þó hvorki óeðlileg né óskiljanleg. Pólitísk afstaða er iðulega hagsmunatengd með einum eða öðrum hætti. Því verður ekki breytt fyrr en með guðsríki á jörð. Hin ástæðan á að vera sú, að andstæðingar aðildar séu "þjóðernissinnar", en það er stjórnmálahugtak, sem í íslensku hefur fyrst og fremst verið haft um þá sem aðhylltust öfgafullar og ólýðræðislegar yfirgangsstefnur á 20. öld, nasisma og fasisma, og fela í sér trú á ágæti einstakra kynstofna umfram aðra og sagðir gæddir ofurmannlegum eigindum. Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa varast að nota orð eins og "þjóðernissinni" og "þjóðernishyggja" sér til einkennis, þó að því undanskildu að stuttan tíma á 4. áratug nýliðinnar aldar var til "Þjóðernishreyfing Íslendinga", fámennur og áhrifalítill flokkur, sem sótti fyrirmyndir til þýskra nasista. Þessi orð eru neikvæð og útdauð í íslenskri stjórnmálaumræðu, en haldið lifandi í máli fræðimanna, einkum sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga. Sagnfræðingar ofnota mjög þessi orð, þótt önnur ættu betur við. Nú vill svo til að ég er í hópi þeirra Íslendinga, sem eru andvígir aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Ég er fullveldissinni en ekki federalisti. Mér þætti ansi hart ef mér væri núið því um nasir að vera þjóðernissinni eða þjóðernissinnaður. Þeir fullveldissinnar, sem ég þekki, frábiðja sér að láta bendla sig við þjóðernishyggju. Íslenskt þjóðerni er hvorki betra né verra en þjóðerni annarra manna. Íslendingar eru ekki ofurmenni og heimsfrægð þeirra mjög ofmetin. Íslendingar eru þjóðarkríli og eiga að passa sitt dont af gætni. Þess vegna eru fullveldissinnar á borð við mig og mína líka andvígir því að semja sig undir yfirþjóðlegt stjórnskipulag sambandsríkis. Stefna okkar er varfærnisstefna. Við erum fullveldissinnar af því að við teljum hag Íslendinga betur borgið með því að halda í þjóðríkið, viðhalda stjórnarfarslegu fullveldi, málið er nú ekki flóknara en það. Viðhorf okkar eru "þjóðleg". Þannig tryggjum við best að íslenskt þjóðfélag sé "samfélag um íslenska menningu, gamlan arf og nýja sköpun, ætlunarverk íslensku þjóðarinnar" eins og forseti Íslands, Kristján Eldjárn, orðaði það í nýjársávarpi 1980. Ég notaði í upphafi þessa greinarkorns orðið "kerfisáróður". Allt eins mætti nefna fyrirbærið stofnanaáróður. "Kerfið" er auknefni valda- og áhrifastofnana þjóðfélagsins. Flestir hafa tilfinningu fyrir því hvað við er átt. "Kerfið" er, eins og nafnið bendir til, allflókinn vefur en ekki samofinn að öllu leyti. Þrátt fyrir það reynist "Kerfið" í mörgum tilfellum svo gagnheilt að það verkar allt í sömu áttina, stundum til góðs, stundum til hins verra. Samverkun "Kerfisins" er áberandi í Evrópumálum. Hagsmunasamtök ýmiss konar líta vonaraugum til Evrópusambandsins. Heilu ráðuneytin ganga svo langt í aðildaráróðri sem kjarkurinn leyfir. Háskólasamfélagið er öflugasti drifkraftur í aðildaráróðri, svo að stappar nærri óskammfeilni. Fjölmiðlar eru undirlagðir af þessu leynt og ljóst, að ekki sé minnst á ýmsa kunna stjórnmálaforingja og foringjaholla flokksgæðinga sem lúmskast með. Það allra nýjasta er að svokölluð Fastanefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi hefur gefið út sérstakt kennsluefni um ESB handa íslenskum ungmennum. Ritið nefnist Upplifðu Evrópu@. Mun unnið að því að fá kennslu í þessum fræðum tekna upp í skólakerfinu. Ósvífni kerfisáróðursins á sér engin takmörk. En hvað er þá að segja um áhrif þessa mikla áróðurs? Jú, þau hljóta að vera töluverð, en þó ekki meiri en við er að búast af slíkri áróðursbreiðsíðu. Því má segja það mörgum landanum til hróss, að hann lætur ekki kerfisáróðurinn snúa sér. Í því felst vonin um að fullveldi Íslands verði ekki fórnað meira en orðið er. Nóg er nú samt. Svo mikið er a.m.k. víst að ríkisstjórnin hefur enn ekki vogað að sækja um fulla aðild að ESB. - En kerfisáróðurinn heldur sitt strik.



Skoðun

Sjá meira


×