Innlent

Þvinguðu fram hækkanir í Noregi

Íslensku olíufélögin þrjú þvinguðu norska olíufélagið Statoil til að hækka olíuverð til íslenskra skipa í Færeyjum svo þau hættu að kaupa olíu þar. Friðrik J. Argrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir ljóst að útgerðafélög hafi tapað miklum fjármunum á samráði olíufélaganna og að nauðsynlegt sé fyrir útgerðarfélögin að kanna bótarétt sinn. Sjávarútvegsfyrirtæki eru líklega stærsti einstaki viðskiptavinahópur olíufélaganna og hefur landssamband þeirra um árabil gangrýnt verðlagningu á eldsneyti og talið óeðlilega háa miðað við verð í nágrannalöndunum, að því er fram kemur í skýrslu Samkeppnisstofnunar. Útgerðin hefur því ítrekað reynt að knýja fram lækkun. Friðrik segist sleginn yfir skýrslunni, enda viðist margir mætir menn hafa misst fótana í þessu máli. Næsta skref hjá þeim sé að reyna að ná trausti viðskiptavina sinna á nýjan leik. Friðrik segir ómögulegt að segja hversu miklu útgerðin hefur tapað á samráði olíufélaganna, en ljóst sé að það sé mikið fé. Meðal þess sem útgerðin hefur reynt til að lækka eldsneytiskostnað sinn er að láta skip sín taka olíu erlendis. Í skýrslunni kemur fram að útvegsmenn hafi núið olíufélögunum því um nasir að olíuverð á Íslandi væri mun hærra en í Færeyjum og sýni gögn málsins að þeirri gagnrýni hafi verið illa tekið. Viðbrögð olíufélaganna voru að þrýsta á um hærra eldsneytisverð fyrir íslensk skip í Færeyjum. Aðgerðir íslensku olíufélaganna beindust að Statoil og Shell, sem bæði stunda olíusölu í Færeyjum og fram kemur að á fundi félaganna þriggja með fulltrúa Statoil í október 2001, hafi íslensku olíufélögin hótað Statoil, sem á í viðskipti við þau, að hætta viðskiptum við félagið ef það beitti sér ekki fyrir verðhækkun á eldsneyti til íslenskra fiskiskipa í Færeyjum. Statoil féllst á þetta og Skeljungur fylgdist með þeirri framkvæmd. Friðrik segir þetta vera hlut sem engann hefði grunað, en hann viti ekki hvort íslensku skipin hafi greitt hærra verð en önnur skip eftir hótanirnar. Skýrslan sé viðamikil og það þurfi að fara í gegnum hana. Friðrik segist sannfærður um að viðskiptahættir sem þessir heyri sögunni til, en að útgerðarfélögin hljóti að kanna bótarétt sinn. Þetta séu mál sem menn hljóti að skoða, enda verði menn að sækja sínar skaðabætur ef þeir eigi þær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×