Erlent

Júsjenko spáð sigri

Samkvæmt útgönguspám hafði leiðtogi stjórnarandstöðu Úkraínu, Viktor Júsjenko, 15% fleiri atkvæði í annarri umferð forsetakosninga þar í landi en andstæðingur hans, Viktor Janúkovitsj forsætisráðherra. Talið var næsta víst að Júsjenko bæri sigur úr býtum en talningu átti að ljúka nú í morgun. Rúmlega 12 þúsund manns frá 43 alþjóðastofnunum og 31 landi, þar á meðal Íslandi, fylgdust með framkvæmd kosninganna til að koma í veg fyrir svik. Janúkovitsj var útnefndur sigurvegari forsetakosninga sem voru haldnar þann 21. nóvember. Eftir mótmæli stuðningsmanna Júsjenko, sem sökuðu andstæðinginn um kosningasvik, ógilti hæstiréttur landsins þá útnefningu og fyrirskipaði að aðrar kosningar skyldu haldnar. Þær hófust í gær og fóru hægt af stað en alls eru um 38 milljónir manna á kjörskrá. Júsjenko, sem er afmyndaður í andliti eftir díoxíneitrun sem hann varð fyrir og kennir stjórnvöldum um, vill færa Úkraínu nær Vesturlöndum á meðan andstæðingur hans vill styrkja tengslin við Rússland. Með því vill hann halda stöðugleika í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×