Erlent

Tjónið á lífríkinu óverulegt

Náttúrufar og dýralíf er óvíða fjölbreyttara en á þeim slóðum sem jarðskjálftinn og flóðbylgjurnar dundu yfir á sunnudaginn. Að mati sjávarlíffræðings sem vel þekkir til á svæðinu eru litlar líkur á að verulegt tjón hafi orðið á lífríkinu í Indlandshafi vegna hamfaranna. Jón Baldur Sigurðsson dýrafræðingur kenndi sjávarlíffræði í hartnær tvo áratugi við háskóla í Singapúr. Hann telur að lífríkið í hafinu hafi ekki orðið fyrir teljandi tjóni af völdum flóðbylgjunnar. Dýrum og gróðri næst ströndinni sé hins vegar meiri hætta búin. "Flóðbylgjan veldur ekki tjóni fyrr hún rekst á grunnsævi en þá myndast háar bylgjur. Úti á rúmsjó er bylgjan hins vegar miklu lægri," segir Jón Baldur en bætir því við að lífríkið á grunnsævinu sé lagað að talsverðum öldugangi. Maldíveyjar urðu illa úti í flóðunum en þær eru í raun kóralrif. "Þau skemmast að einhverju leyti. Hins vegar eru kórallar lífverur og eiga því að ná sér aftur á strik. Hversu langan tíma það tekur fer hins vegar eftir skemmdunum." Krökkt er af alls kyns fiski í Indlandshafi sem Jón Baldur efast um að flóðbylgjan hafi haft áhrif á. "Þeir verða voða lítið varir við þetta, held ég. Það verður ekki mikil ólga í sjónum vegna bylgnanna fyrr en þær komast á grunnsævi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×