Erlent

Máttur viljans ótrúlegur

"Uppbyggingin verður hæg, peningar sem hefur verið lofað munu ekki alltaf skila sér og sorgin mun vofa yfir, en máttur viljans getur verið ótrúlegur," segir Ali Jewshai, embættismaður í írönsku borginni Bam, um þá tíma sem eru í vændum í Suðaustur-Asíu. Fáir vita betur hvað íbúar á hamfarasvæðinu við Indlandshaf eiga í vændum en íbúar Bam, þar sem 27 þúsund manns týndu lífinu í jarðskjálfta fyrir ári síðan. Borgin telur nú um eitt hundrað þúsund manns og flestir búa enn í bráðabirgðahúsnæði. Af þeim fimmtán þúsund heimilum sem eyðilögðust í skjálftanum hafa um sex þúsund verið endurreist. Talið er að um tíu þúsund manns þjáist enn af áfallastreitu en þrátt fyrir eigin hörmungar er hugur íbúa Bam hjá meðbræðrum þeirra við Indlandshaf. Skólabörn spyrja kennara sína hvað þau geti gert til að leggja sitt af mörkum og haldnar hafa verið fjáröflunarsamkonur til styrktar hinna hrjáðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×