Erlent

Staðfest að 125 þúsund hafa látist

Staðfest er að 125 þúsund manns séu látnir eftir hamfarirnar í Indlandshafi. Óttast er sú tala eigi eftir að tvöfaldast. Talið er að í Indónesíu einni hafi hundrað þúsund manns farist. Ömurlegar afleiðingar hamfaraflóðanna blasa alls staðar við í Suðaustur-Asíu, en flóðin, sem urðu af völdum risajarðskjálftans við Súmötru, á öðrum degi jóla, rústuðu heilu bæjunum og þorpunum. Afleiðingarnar eru skelfilegar, því auk þess sem mannfall er gríðarlegt, hafa milljónir manna glatað heimilum sínum og misst lífsviðurværi sitt. Þúsunda er enn saknað vegna flóðanna. Staðfest hefur verið, að að minnsta kosti 4500 manns hafi farist í Tælandi, þar af 2200 erlendir ferðamenn. Mannfallið er langmest á Indónesíu, en þar hafa tæplega áttatíu þúsund lík fundist. Óttast er að allt að hundrað þúsund manns hafi látist á Indónesíu, langflestir í Aceh-héraði, sem er skammt frá upptökum jarðskjálftans á Súmötru. Skorað hefur verið á stærstu iðnríki heims og Sameinuðu þjóðirnar að boða til leiðtogafundar vegna hamfaraflóðanna. Á Sri Lanka er ástandið einnig skelfilegt, en yfirvöld landsins hafa staðfest að rúmlega 27 þúsund manns hafi farist vegna flóðbylgjunnar, og á Indlandi hafa rúmlega 7000 lík fundist, en um 6000 er enn saknað. Skelfing greip um sig á Indlandi í morgun vegna fregna um að yfirvöld landsins hefðu tilkynnt um hættu á frekari flóðbylgjum, en indversk stjórnvöld vísuðu síðar þeim fréttum á bug. Tugmilljónir manna við Indlandshaf eiga um sárt að binda og vofir hungursneið og farsóttir yfir. Matar og vatnsskortur hefur þegar víða gert vart við sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×