Erlent

2700 saknað frá Norðurlöndunum

Alls tvö þúsund og sjö hundruð Norðurlandabúa er saknað á hamfarasvæðunum í Asíu, þar af um fimmtán hundruð Svía og tæplega fimm hundruð Norðmanna. Ef fer sem horfir stefnir í eitt mesta mannfall sænskra og norskra ríkisborgara á friðartímum. Búið er að koma upp loftbrú frá hamfarasvæðunum, aðallega frá Tælandi og Sri Lanka, til að flytja slasaða Norðmenn og Svía heim. Fólk virðist smám saman vera að átta sig á alvarleika þessara hamfara og þjóðarsorg er að leggjast yfir hin Norðurlöndin. Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð og Sri Lanka, segir meiri ferðamennsku hafa verið frá Svíþjóð til Taílands en frá öðrum Evrópuþjóðum og því sé þetta jafnvel enn sárara í Svíþjóð en annars staðar. Hann segir stöðugar fréttir í útvarpi og sjónvarpi af atburðunum í Asíu og meðal annars séu sagðar hjartaskerandi fréttir af börnum sem tapað hafi foreldrum sínum. Sænski drengurinn Hannes Bergstrom sem er tæpra tveggja ára og fannst aleinn og meðvitundarlaus nálægt sundlaug á Phuket eyju á Tælandi er nú kominn til fjölskyldu sinnar. Hann hefur verið kallaður kraftaverkadrengurinn í sænskum fjölmiðlum því björgun hans undan flóðbylgjunni þykir kraftaverki líkust. Amma hans og föðurbróðir fundu hann eftir að mynd af honum var sett á netið og í dag hitti hann föður sinn sem liggur slasaður á sjúkrahúsi. Óttast er að móðir hans hafi látist en hennar er enn leitað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×