Erlent

Eyðileggingin mest á Sri Lanka

Tala látinna vegna flóðbylgjunnar á Indlandshafi nálgast nú sjötíu þúsund manns. Flestir hafa látið lífið í Aceh héraði á Indónesíu en eyðileggingin er hvað mest á Sri Lanka þar sem allt stjórn- og efnahagskerfi er lamað. Tala látinna hækkar dag frá degi og nú er talið er að um þriðjungur þeirra sem fórust í þessum hamförum hafi verið börn. Margir foreldrar hafa sagt frá því hvernig flóðbylgjan hrifsaði börnin þeirra úr höndunum á þeim. Mjög er nú óttast að farsóttir kvikni í kjölfarið því rotnandi lík liggja nú alls staðar á hamfarasvæðunum og björgunarmenn og íbúar verða að hylja vit sín vegna lyktarinnar. Eyðileggingin í Ache héraði í norðurhluta Indónesíu sem liggur næst miðju jarðskjálftans er nú fyrst að koma í ljós þar sem björgunarmenn eru í fyrsta sinn að fara um marga afskekktari staði héraðsins. Svo virðist sem eyðileggingin þar sé skelfileg og verri en nokkurn óraði fyrir. Yfirvöld búast við því að um fjörutíu þúsund manns hafi látið þar lífið. Ache hefur verið í heljargreipum borgarastyrjaldar í lengri tíma og erfitt um vik með björgunarstarf. Svo virðist hins vegar sem jarðskjálftinn og flóðbylgjan sem fylgdi í kjölfarið hafi haft hvað verst áhrif á Sri Lanka þar sem allt stjórnkerfi landsins er í algjöru lamasessi. Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð er einnig sendiherra fyrir Sri Lanka og hefur verið í stöðugu símasambandi við þarlend yfirvöld. Hann segir fólk og híbýli hafa farið með flóðunum og eins hafi stofnanir hrunið, svo sem sjúkrahús og skólar. Hann segist telja að ástandið á Sri Lanka vera með því versta sem um getur. Sri Lanka er eyja og Svavar segir að ástæðan fyrir því að landið hefur orðið svo illa úti er að áhrifanna gætti nánast alls staðar. Hann segir að flóðaldan snerti meira en helminginn af landinu. Öll norðurhlið landsins, sem og austurhliðin og suðuroddinn séu meira eða minna í rúst. Því sé ástandið þar líklega enn verra en í löndunum í kring. Jarðskjálftinn sem olli þessari flóðbylgju var svo öflugur að vísindamenn telja nú að hann hafi fært jarðflekana undir Indlandshafi um þrjátíu metra. Meira að segja lítil eyja nærri Súmötru á Indónesíu hefur hreinlega færst úr stað. Þá hafði skjálftinn áhrif á möndulhreyfingar jarðarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×