Erlent

Þúsundir hefðu getað bjargast

Viðvörunarkerfi hefði getað bjargað lífi þúsunda í Suðaustur-Asíu í gær. Ekkert slíkt kerfi var hins vegar fyrir hendi og því var enginn viðbúinn ógnarkrafti flóðbylgjunnar. Flóðbylgjur á borð við þá sem kostaði á þriðja tug þúsunda lífið í Suðaustur-Asíu í gær myndast við öfluga jarðskjálfta á hafsbotni. Jörðin bókstaflega lyftist og risabylgja myndast sem síðar skellur á landi. Krafturinn í flóðbylgjum af þessu tagi er ógurlegur og veldur gríðarlegu tjóni, bæði hvað varðar mannslíf og á mannvirkjum. Flóðbylgjur tengjast að jafnaði jarðhræringum eins og þeim sem urðu á plötuskilum Evrasíuflekans og Indlandsflekans á sunnudagsmorgun. Öflugir jarðskjálftar, eldgos og aurflóð út í vatn geta valdið svona bylgjum. Engin leið er að greina hvort flóðbylgja myndast, fyrir utan að fylgjast með jarðskjálftamælum og athuga hvort vart verður við breytingar á sjávargangi við land skömmu síðar. Í Bandaríkjunum og Japan eru viðvörunarkerfi fyrir hendi en þau ríki sem urðu fyrir barðinu á flóðbylgjunni í gær hafa ekki komið sér upp neinu slíku þar sem þau töldu það óþarfa, auk þess sem fæst hefðu efni á því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×