Erlent

Breytingar standast ekki

Stjórnlagadómstóll Úkraínu komst að því í morgun að breytingar sem gerðar voru nýlega á kosningalögum landsins, brytu í bága við stjórnarskrána. Önnur umferð forsetakosninganna í Úkraínu verður endurtekin á morgun. Mikil spenna ríkir í Úkraínu fyrir forsetakosningarnar á morgun, og er búist við góðri kosningaþátttöku landsmanna. Kosningarnar fara fram í kjölfar þess að önnur umferð kosninganna, sem fram fór 21. nóvember síðastliðinn, var ógilt af hæstarétti landsins, vegna ásakana um víðtæk kosningasvik af hálfu stjórnvalda, en þar bar Viktor Janúkóvits, forsætisráðherra, sigurorð af Viktor Júsjenkó, helsta keppinaut sínum og leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Hörð mótmæli urðu í landinu eftir að Janúkóvits var lýstur sigurvegari og kröfðust hundruð þúsunda Úkraínumanna þess að kosningarnar yrðu ógiltar og að Júsjenkó yrði lýstur sigurvegari. Stjórnlagadómstóll Úkraínu komst að því í morgun að breytingar sem gerðar voru nýlega á kosningalögum landsins, brytu í bága við stjórnarskrána, en forsetakosningarnar verða engu að síður látnar fara fram eins og áformað er. Breytingar sem takmörkuðu kosningar á heimilum fólks, og gerðu ráð fyrir að aðeins alvarlega fatlaðir einstaklingar gætu greitt atkvæði heima, voru gerðar nýlega á kosningalögunum og taldi stjórnlagadómstóll það brjóta gegn réttindum kjósenda. Kosningasvikin í síðasta mánuði virtust einkum tengjast utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Forseti réttarins segir markmið nýrra laga að tryggja lögmætar forsetakosningar, í samræmi við stjórnarskrá landsins. Kannanir benda til þess að Júsjenkó fari með sigur af hólmi í kosningunum að þessu sinni. Báðir frambjóðendurnir notuðu tækifærið og hvöttu stuðningsmenn sína í gærkvöldi. Júsjenkó ávarpaði mannfjölda í Kænugarði og sagði framtíð landsins ráðast á morgun. Janúkóvits, forsætisráðherra, kom fram á baráttufundi í bænum Beregovo, í vesturhluta landsins, en hann sagðist ætla að tryggja einingu Úkraínu. Kútsma, fráfarandi forseti, hefur gagnrýnt kosningabaráttu beggja frambjóðenda og segir þá hafa stuðlað að einhverri mestu óeiningu sem dunið hafi yfir landið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×