Erlent

Hermenn í Írak heyja sálarstríð

Bandarísk yfirvöld hafa nú staðfest að sprengingin sem varð 22 mönnum að bana í matsal bandarískrar herstöðvar í borginni Mosul í Írak á þriðjudaginn var ekki vegna flugskeytis heldur var um sjálfsmorðsárás ræða. 69 manns særðust í árásinni. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Richard Myers hershöfðingi tilkynntu þetta á blaðamannafundi í gær. Líkamshlutar árásarmannsins hafa fundist sem og vesti sem hann notaði til að geyma sprengiefnið í. Árásin á þriðjudaginn er litin gríðarlega alvarlegum augum. Ekki hefur orðið meira mannfall í árás á bandaríska herstöð í Írak síðan stríðið hófst í mars 2003. Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum segja að árásin hafi þegar haft áhrif á sálarþrek hermanna. Fyrst hægt sé að ógna öryggi þeirra með þessum hætti inni á herstöð finnist þeim að þeir séu hvergi öruggir. Fyrirtækið sem ráðið var til að reka mötuneytið í herstöðinni í Mosul er með starfsmenn frá ýmsum löndum í vinnu hjá sér, einnig Íraka. Samtökin Ansar al-Sunnah sem hafa lýst ábyrgð á árásinni segja á heimasíðu sinni á netinu að maðurinn sem sprengdi sig í loft upp hafi verið Íraki frá Mosul. Hann hafi starfað í mötuneytinu í fjóra mánuði áður en hann sprengdi sig í loft upp. Aukin sókn uppreisnarmanna hefur ekki bara áhrif á sálarlíf hermanna heldur einnig uppbygginguna í landinu. Í gær tilkynnti verktakafyrirtækið Contrack International að það væri hætt að sinna verkefni sínu við uppbyggingu vegakerfisins. Það verk var metið á rúma 20 milljarða króna. Ástæðan fyrir því að fyrirtækið ætlar að draga sig út úr Írak er aukin hætta á hryðjuverkum og ógn við öryggi starfsmanna. Mikið er að gera á hersjúkrahúsinu í Landstuhl í Þýskalandi þessa dagana en þangað eru illa særðir bandarískir hermenn fluttir frá Írak. Læknar vinna nú myrkranna á milli og er reiknað með því að ástandið verði svipað um jólin. Á miðvikudaginn voru 42 hermenn fluttir þangað. Sautján af þeim voru taldir í bráðri lífshættu. Í gær voru 30 hermenn til viðbótar fluttir til Landstuhl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×