Erlent

Stefnir Wal-Mart vegna sjálfsmorðs

Bandarísk móðir hefur stefnt verslunarkeðjunni Wal-Mart eftir að 24 ára dóttir hennar framdi sjálfsmorð með byssu sem hún keypti í einni af verslunum fyrirtækisins. Móðirin krefst 25 milljóna Bandaríkjadollara í skaðabætur. Dóttir konunnar þjáðist af geðhvörfum og geðklofa og samkvæmt bandarískum lögum er bannað að selja fólki vopn sem á við geðræn vandamál að stríða. Stúlkan var vön að sækja lyfin sín í sömu verslun og hún keypti byssuna og ber móðirin því við að afgreiðslufólk hafi vitað af sjúkleika hennar. Dóttirin sagði ósatt um ástand sitt þegar hún keypti byssuna og þegar nafni hennar var slegið inn í gagnabanka bandarísku alríkislögreglunnar kom ekkert fram. Gagnabankinn á að hafa nöfn allra þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða vegna fyrrgreindra laga en þrjátíu og átta af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna senda ekki slíkar upplýsingar til bankans á grundvelli laga um persónuvernd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×