Innlent

Fjarlægðin ver okkur fuglaflensu

Hverfandi hætta er talin á því að farfuglar geti borið hingað fuglaflensu, að mati Auðar Lilju Arnþórsdóttur, sóttvarnadýralæknis hjá yfirdýralæknisembættinu. "Út af fyrir sig er hins vegar áhugavert að skoða straum farfugla frá þessum löndum þar sem hættan er mest," segir Auður Lilja og bætir við að vitað sé um andfugla sem fari yfir Síberíu, niður Finnland og yfir Danmörku til Þýskalands. Hún segir mjög litlar líkur á að smit gæti borist hingað vegna skörunar við aðra farfugla. "Við erum í einna minnstri hættu hér á landi, nema auðvitað að fram komi stökkbreytt afbrigði sem smitast á milli manna." Í Asíu hefur fuglaflensa greinst í villtum fuglum, síðast fyrir hálfum mánuði í dauðum gráhegra sem fannst í Hong Kong nærri landamærunum við Kína. Hegrinn var sýktur af H5N1 fuglaflensuvírusnum, en hann hefur á árinu orðið yfir 30 manns að bana í Víetnam og Taílandi. Í síðasta mánuði fannst annar dauður gráhegri með H5N1 vírusinn á sama svæði og í janúar fannst dauður förufálki sem einnig greindist með fuglaflensu. Fólk getur smitast af fuglaflensuvírusnum af sýktum fuglum, en hann smitast ekki á milli manna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur uppi viðbúnað af ótta við að fram komi stökkbreytt afbrigði vírussins sem valdið gæti mannskæðum heimsfaraldri. Búist er við að allt að sjö milljón manns gætu látist um heim allan í slíkum faraldri. "Aðalfarfuglarnir sem hætta er af er fólkið, það er að segja ef stökkbreyting verður í vírusnum," segir Auður Lilja. Auður Lilja segir þó ekki hægt að neita því að nokkur fjöldi sjúkdóma sem borist geti með dýrum færist nær landinu. "Við erum auðvitað mjög á verði gagnvart slíkum sjúkdómum. Það eru ýmsir af þessum veirusjúkdómum og líka fleira sem kemur til af breyttum aðstæðum, svo sem hlýnandi veðurfari. Margir af þessum sjúkdómum þurfa millihýsla sem við erum laus við hér," segir hún, en bætir við að vitanlega þurfi að vera á varðbergi gagnvart nýjum tegundum sem hér geti stungið sér niður. "Við vitum um þessa snigla sem hér eru að koma," segir hún og bætir við að hér hafi einnig fundist stöku blóðmaurar sem algengir eru á Norðurlöndunum, en hafi hingað til ekki fundist hér. "Þetta er nokkuð sem við erum vakandi fyrir, en þeir geta borið með sér veirur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×