Erlent

Ætluðu að ræna gjaldeyrisbankann

Sænska lögreglan leitar að hópi manna sem grunaðir eru um að hafa gert tilraun til að ræna gjaldeyrisbanka í höfuðborginni fyrr í dag. Mennirnir komu sprengju fyrir á starfsmanni bankans og fyrirskipuðu honum að fara til vinnu í morgun og krefjast peninga. Til að fá vilja sínum framgengt héldu þeir sambýliskonu hans fanginni á heimili þeirra. Glæpamennirnir gerðu sig heimakomna á heimili parsins í gærkvöld og vörðu þar allri síðustu nótt. Þegar í bankann var komið losaði maðurinn sig hins vegar undireins við sprengjuna og gerði lögreglu viðvart. Sprengjusérfræðingar fluttu sprengjuna á brott en þrátt fyrir það hefur lögreglan girt af stóran hluta miðborgarinnar. Glæpamennirnir voru á bak og burt þegar gerð var atlaga á heimili bankastarfsmannsins. Þar fann lögregla þó konuna, keflaða, en heila á húfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×