Innlent

Stífkrampabaktería víða í jörðu

Stífkrampabaktería er í jörðu á þó nokkrum stöðum á landinu, þar á meðal í Norðlingaholti, norðan Elliðavatns. Þar á að reisa rúmlega þúsund íbúða byggð.  Bakteríusmitið á Norðlingaholti er rakið til þess að svína- og hænsnabú var á jörðinni. Enn má sjá leifar af skítahaugum á svæðinu í tengslum við þann búrekstur. Þá hefur hesthúsabyggð verið á svæðinu og stífkrampasmit í hrossum hafa verið algeng. Dæmi eru um að þau hafi verið skotin og urðuð á svæðinu. Stífkrampi stafar af bakteríu sem getur lifað í jarðvegi í nokkur ár og auðvelt er að smitast af óhreinindum sem komast í sár. Bakterían framleiðir eitur sem hefur áhrif á vöðva með herpingi og stífni og getur leitt til dauða ef ekkert er að gert. Til er móteitur sem virkar, ef nægilega fljótt er gripið til þess, en eina örugga vörnin er bólusetning. Nú er fyrirhugað að reisa byggð á Norðlingaholti með íbúafjöldi á við Neðra-Breiðholt. Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Keldum, segist gera ráð fyrir að flett verði ofan af jarðveginum áður en til framkvæmda kemur en vissara sé að fara gætilega. Það gildi sú regla að ef menn stingi sig þannig að djúpt sár myndist og óhreinindi lokist inni, þá þarf nauðsynlega að leita læknis til að hreinsa sárið og jafnvel að fá bólusetningu.   Fulltrúi hjá sóttvarnarlækni tekur í sama streng. Byrjað var að bólusetja börn við stífkrampa hér á landi árið 1953 en ef meira en tíu ár eru liðin frá bólusetningu, og fólk fær óhreinidi úr jarðveginum í sár, þá þarf að endurnýja hana. Tilvonandi íbúar á Norðlingaholti geta haft þau tilmæli í huga og einnig að hægt er að bólusetja hunda og ketti fyrir stífkrampa. Fjölskyldur og gæludýr þeirra ættu því að geta unað hag sínum vel á Norðlingaholti að mati Sigurðar en vitanlega þarf ávallt að vera á varðbergi. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×