Erlent

Friðarvonir dofna í kjölfar árása

Vonir um frið í Miðausturlöndum dofnuðu í nótt eftir að palestínskir hryðjuverkamenn gerðu árás á eftirlitsstöð Ísraelshers og herinn svaraði með loftárásum á Gasa-borg. Árás palestínsku hryðjuverkamannanna var skipulögð í þaula en þeir höfðu grafið göng undir landamæraeftirlitsstöð Ísraelsmanna á mörkum Gasa-strandarinnar og Egyptalands. Í göngunum komu þeir fyrir einu og hálfu tonni af sprengiefni sem þeir sprengdu í loft upp með þeim afleiðingum að fimm hermenn fórust og tíu særðust. Þetta er mannskæðasta árás palestínskra hryðjuverkamanna frá því að Jassir Arafat lést. Ekki stóð á viðbrögðunum. Ísraelskar herþyrlur skutu í það minnsta átta flugskeytum á skotmörk í Gasa-borg í hefndarskyni. Eitt þeirra lenti á rafstöð og annað á málmsteypu en ekkert mannfall varð eftir því sem næst verður komist. Nokkrum stundum síðar drápu ísraelskir hermenn byssumann úr röðum Hamas. Ísraelska útvarpið segir herhöfðingja þegar hafa gert áætlanir um frekari hefndaraðgerðir sem hrundið verði í framkvæmd á næstu dögum. Átökin draga nokkuð úr bjartsýni sem vaknað hefur fyrir botni Miðjarðarhafs um að friðarferlið þar gæti þokast í rétt átt. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, segir friðarviðræður byggjast á því að árásum linni en kveðst ekki hafa séð neina breytingu á starfsháttum palestínskra yfirvalda frá fráfalli Jassirs Arafats.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×