Erlent

Eitrunin rannsökuð

Stjórnvöld í Úkraínu hafa ákveðið að hefja lögreglurannsókn á því hvort eitrað hafi verið fyrir Viktor Júsjenkó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Úkraínu. Austurrískir læknar tilkynntu í gær að orsökin fyrir veikindum hans, sem meðal annars lýsa sér með útbrotum í andliti og margskonar einkennum frá líffærum, væri díoxín eitrun. Júsénkó veiktist í september og hafa veikindin ágerst mjög hratt. Síðustu dagana fyrir forsetakosningarnar umdeildu í lok nóvember var hann sárþjáður og fékk verkjalyf í æð á síðustu metrum kosningabaráttunnar. Saksóknarar í Úkraínu hafa nú fyrirskipað að málið verði rannsakað, en áður hafði lögregla komist að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til þess að eitrað hefði verði fyrir Júsjenkó. Austurrísku læknarnir segja að ef Júsjenkó hefði ekki komist undir læknishendur hefði hann látist af einkennum sínum. Svo virðist sem líffæri Júsénkós séu ekki varanlega skemmd, en sérfræðingar segja að minnksta kosti tvö ár muni líða áður en andlit hans verður eðlilegt á ný, ef það verður það nokkurn tímann. Júsjenkó hefur ítrekað sakað stjórnvöld um að hafa eitrað fyrir sér. Þessar ásakanir verða væntanlega ofarlega á baugi í kosningabaráttunni, en forsetakosningarnar verða endurteknar sem kunnugt er, þann 26. desember, vegna deilna og ásakana um kosningasvindl af hálfu forsætisráðherrans Janúkóvits. Nýjustu kannanir sýna að fylgi við Júsjenkó sé tíu prósentustigum meira en keppinautar hans, forsætisráðherrans Janúkóvits.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×