Innlent

Landbrot líkleg orsök smitsins

Hræ hrossanna fjögurra, sem ýmist drápust eða var lógað eftir að hafa smitast af miltisbrandi við bæinn Sjónarhól á Vatnsleysuströnd, voru brennd í dag. Enn er ekki vitað hvernig veikin barst í hrossin en landbrot er talið líklegasta skýringin. Um tugur manna sem sinnti hrossunum hefur verið settur á sýklalyf í forvarnarskyni. Miklar varúðarráðstafanir voru hjá slökkviliði Suðurnesja sem sá um brennsluna. Ljóst er að þessir menn eru vanari því að slökkva eld en kveikja því eldfæri höfðu þeir ekki með í för og þurftu að leita til reykingamanna úr hópi fjölmiðlamanna til að kveikja í þeim átján tonnum af eldiviði sem höfðu verið flutt að bænum Sjónarhóli. Með því að brenna hræin verða þau ekki lengur smitberar. Um tugur manna sem átti við hestana hefur verið gefinn sýklalyf í forvarnarskyni en enginn þeirra hefur sýnt einkenni smits. Þá hafa jarðvegssýni verið tekin við bæinn en enn er ekki vitað hvaðan veikin barst í hrossin. Talið er að miltisbrandur geti lifað í allt að 200 ár eða lengur í jörðu og því er líklegt að smit hafi borist úr hræjum sem grafin voru í jörðinni fyrir áratugum síðan. Helst er talið að jarðrask hafi orðið þegar sjávargarður brast við bæinn á síðasta ári. Hafsteinn Snæland, sem stundaði búskap á jörðinni fram til ársins 1971, segir að tíu til tólf metra breiður jarðvegskambur hafi verið við tjörnina. Hann er nú horfinn en það er eina jarðraskið sem vitað er til að hafi orðið við Sjónarhól. Hafsteinn telur að skófla hafi ekki verið borin í jörð síðan hann flutti frá staðnum. Rétt er að taka fram að engin hætta er talin vera á smiti hjá fólki sem átt hefur leið hjá smitsvæðinu en gripið hefur verið til ráðstafana til að grasbítar fari ekki inn á svæðið. Þeir geta smitast við það að innbyrða mengað vatn og gras. Gunnar Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir segir að óskað hafi verið eftir að grasbítar í næsta nágrenni verði hýstir og að gengið sé þannig frá girðingum að þeir sleppi ekki út. Einnig þarf að laga girðingar kringum Sjónarhól því þær eru allar ónýtar. Þrátt fyrir að miltisbrandstilfella hafi ekki orðið vart hér á landi síðustu fjóra áratugi varaði Sigurður Sigurðarson hjá embætti yfirdýralæknis við því, í fréttum Stöðvar 2 fyrir aðeins fáeinum dögum, að sú atburðarás sem átt hefur sér stað við Sjónarhól yrði að veruleika. Hann sagði miltisbrand leynast víða í jörð og skoraði á sveitarstjórnir að hefja athugun á því hvort upplýsingar lægju fyrir um miltisbrandstilfelli og -grafir og merkja slíka staði til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Einnig má telja líklegt að á undanförnum árum hafi sýkt dýr hafi verið urðuð líkt og fyrsta hrossið sem fannst dautt við Sjónarhól á fimmtudag. Þannig skapast smithætta. Varúðarbjöllum tók hins vegar að hringja þegar tvö hross til viðbótar drápust á sunnudag og það fjórða veiktist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×