Innlent

Sprungnar lagnir valda tjóni

Mikið tjón varð á húsnæði M-hótels við Hafnarstræti á Akureyri þegar vatnslagnir frostsprungu og kalt vatn flæddi um fjórar hæðir hússins. Hótelið var ekki í rekstri en fullbúið öllum búnaði. Ekki er enn ljóst hversu mikið tjónið er en sýnt að það hleypur á milljónum. Það var starfsmaður Securitas á Akureyri sem tilkynnti lögreglu og slökkviliði um lekann kl 21:25 s.l. fimmtudagskvöld en þá flæddi vatn um ris hússins og allar þrjár hæðirnar þar undir. Þrír starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar unnu fram eftir kvöldi við að koma vatninu út og þurftu bæði að nota dælur og vatnssugur. Ekki er vitað hvenær vatnið fraus í leiðslunum en talið að það hafi gerst fyrir um hálfum mánuði þegar frostið náði um 15 gráðum á Akureyri. Þegar hlýnaði á ný tók vatn að flæða úr leiðslunum og er jafnvel talið að vatnið hafi lekið í marga daga áður en lekinn uppgötvaðist. Í hótelinu eru 19 herbergi en það hefur ekki verið í rekstri síðan haustið 2003 og hefur verið til sölu síðan þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×