Innlent

Austanáttin lán í óláni

Í reyknum sem myndaðist í eldinum á mánudagskvöldið voru hættulegar eiturgufur og því varð að flytja hátt í sex hundruð manns af heimilum sínum. Ef vindátt hefði verið önnur er ljóst að til mun umfangsmeiri aðgerða hefði þurft að koma því steinsnar frá vettvangi eru þéttbýl íbúðahverfi sem í eru öldrunar- og hjúkrunarheimili. Á meðan bruninn var sem mestur ríkti nokkuð stöðug austanátt í höfuðborginni. Því var svæðið sem reykjarmökkurinn huldi nokkuð afmarkað eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Rétt eins og í öskufalli í eldgosum er reykurinn þéttastur næst eldsupptökunum en eftir því sem fjær dregur þynnist hann. Því þrengri sem reykgeirinn er þeim mun meira fellur af sóti og ösku á það svæði sem er innan hans. Að sögn Hauks Ásmundssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík, sáu menn á vettvangi tæpast handa sinna skil. "Lögreglumenn sem voru á gatnamótum Sæbrautar og Laugarnesvegar lögðu bílnum og fóru aðeins út. Nokkra metra frá bílnum sáu þeir hann ekki lengur enda þótt aðvörunarljósin væru í gangi." Haukur segir að lögreglan hafi mestar áhyggjur haft af eldra fólki sem oft þarf á svefnlyfjum að halda og vaknar því ekki við dyrabjölluna. "Við brjótum ekki upp dyr þar sem ekki er talin mjög mikil hætta á ferðum. Hins vegar verður að meta þetta hverju sinni. Ef einhvers staðar er opinn gluggi þá lítur málið illa út og þá er stundum brotist inn," segir Haukur sem kveðst viss um að einhverjir hafi orðið eftir heima hjá sér. "Ég held að reynt hafi verið að djöflast á öllum hurðum þar sem gluggi var opinn. Ég hef hins vegar ekki heyrt af því að hurðir hafi hreinlega verið brotnar upp," segir hann en ítrekar jafnframt að hefðu hús verið brennandi þá hefði að sjálfsögðu verið ruðst til inngöngu og náð í fólk. Að sögn Hauks var eitthvað um að fólk hleypti ekki lögreglunni inn. "Fólk þorði ekki að opna fyrir okkur, hélt að einhver lýður væri á ferðinni, handrukkarar eða þvíumlíkt. Hins vegar opnaði fólk þegar það sá að þetta var lögreglan," segir hann. Austanstrekkingurinn gerði það að verkum að svæði sem afmarkaðist af Dalbraut, Rauðalæk, Laugarnesvegi og Köllunarklettsvegi varð hulið reyk á augabragði og því þurfti að rýma hús á því svæði. Jón Viðar Matthíasson aðstoðarslökkviliðsstjóri telur vindáttina hafa verið með óhagstæðara móti vegna íbúðahverfanna sem urðu fyrir reyk. "Það hefði verið betra ef vindáttin hefði staðið meira út á sjóinn, sunnanátt hefði í raun verið best." Ef sunnanáttin hefði verið heppilegust þá er öruggt að norðan- eða norðaustanátt hefðu haft mun alvarlegi afleiðingar. Eins og sjá má af kortinu á síðunni hefðu stór íbúðahverfi verið kaffærð í kolsvörtum eiturgufunum, en ríflega 4.000 manns búa á þessum slóðum, þar af fjöldi aldraðra. Aðspurður hvort svo umfangsmiklar rýmingaráætlanir væru til segir Haukur að yfirvöld hefðu haft einhver ráð með það. "Við hefðum notað fjölmiðla til að vekja athygli á hættunni og jafnframt keyrt um hverfið með gjallarhorn og annað, rétt eins og nú. Það er hins vegar alltaf spurningin hvert farið er með fólk. Ef ekki hefðu verið nógu margir strætisvagnar til að flytja fólkið hefðum við hringt í rútufyrirtæki líka." Engum dylst að við öllu verri aðstæður hefði verið að etja í norðaustanátt. Byggðin er dreifðari þannig að mun fjölmennara lið hefði þurft til að vekja íbúa og koma þeim í öruggt skjól og í stað þess að ganga íbúð úr íbúð, eins og á Kleppsveginum, hefði björgunarliðið þurft að þræða þröngar innkeyrslur einbýlishúsanna í gegnum sótsvartan mökkinn. Þannig má segja að austanstrekkingurinn hafi verið lán í óláni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×