Fastir pennar

Múrar hugarfarsins

Um þessar mundir minnast menn og fagna þeim tímamótum þegar Berlínarmúrinn féll. Niðurrif múrsins markaði endalok blóðugs tímabils kúgunar og skiptingar Evrópu. Þetta voru mikil tímamót og frá því að ríki Austur-Evrópu fengu frelsi hafa þau tengst nágrönnum sínum sterkari böndum. Alþjóðleg fyrirtæki hafa fjárfest í þessum ríkjum og ef heldur fram sem horfir munu lífskjör í þessum löndum færast hraðbyri í átt til þess sem þekkist í löndum Vestur-Evrópu. Nýfrjáls ríki hafa gengið til liðs við Evrópusambandið og njóta nú aðgengis að stærri markaði, bæði fyrir vörur og vinnu. Sú þróun til opnunar í heiminum sem fall Berlínarmúrsins táknar hefur einnig nýst Íslendingum vel. Íslenskt viðskiptalíf sækir fram og með jöfnu millibili berast fregnir af nýjum landvinningum íslenskra kaupsýslumanna á erlendum mörkuðum. Fáa hefði grunað fyrir örfáum árum að hið þekkta vöruhús Kaupmannahafnar Magasin du Nord yrði innan skamms eign íslenskra fjárfesta. Þeir eru fleiri múrarnir en þeir sem gerðir eru úr múrsteinum og gaddavír. Múrar hugarfarsins eru ekki síðri hindrun á veginum til friðar og velsældar. Við fögnum árangri íslenskra fyrirtækja erlendis. Við fögnum einnig velgengni einstakra landa okkar á erlendri grund. Við viljum frelsi til þess að flytjast til útlanda og þegar þangað er komið viljum við halda sérkennum okkar um leið og við gerum kröfur til þess að njóta sömu réttinda og innfæddir íbúar viðkomandi landa. Á sama tíma vex því sjónarmiði fiskur um hrygg að íbúar Íslands sem eru af erlendum uppruna séu óæskilegir og takmarka beri aðgengi þeirra að landinu meira en þegar er gert. Í nýrri könnun Gallup kemur í ljós að þeim Íslendingum fjölgar sem hafa neikvæð viðhorf til landa sinna sem eru af erlendum uppruna. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Þessi viðhorf endurspegla þann sérkennilega tvískinnung sem birtist í hörðum þjóðernisviðhorfum. Viðhorfum sem ganga út frá því að við séum á einhvern hátt betri eða merkilegri en afgangur mannkynsins. Svo er ekki, en við erum heldur ekkert verri. Sá sem flytur til annars lands víkkar sjóndeildarhring sinn. Sama gildir um þann sem tekur þeim sem flytjast í heimabyggð hans opnum örmum. Fólk af erlendum uppruna hefur um langt skeið flust hingað til lands og mikill meirihluti þess hefur auðgað þjóðina með vinnu sinni og framlagi til samfélagsins. Íslensku tónlistarlífi fleygði til dæmis fram á árunum kringum seinni heimsstyrjöld vegna starfs nokkurra eldhuga sem fluttust hingað frá hinni hrjáðu Evrópu. Þegar þess verður vart að til sé að verða múr hugarfars fordóma og mannfyrirlitningar á að spyrna við fótum. Fólk er yfirleitt ekki illa innrætt. Afstaða eins og sú sem birtist í könnun Gallups er gjarnan sprottin af vanþekkingu og ótta við hið ókunnuga. Yfirvöld og aðrir þurfa að taka höndum saman til þess að koma í veg fyrir að slíkur múr verði reistur. Fræðsla er besta meðalið við hræðslu og henni þarf að sinna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×