Erlent

Útiloka að Arafat þjáist af hvítblæði

Læknar á hersjúkrahúsi í París hafa útilokað að Yasser Arafat, forseti heimastjórnar Palestínumanna þjáist af hvítblæði. Arafat var fluttur til Parísar í gær vegna alvarlegra veikinda. "Arafat er ekki með hvítblæði", sagði Mohammed Rashid, einn helsti ráðgjafi Arafats í kvöld. "Læknar hafa útilokað það, útilokið það einnig," sagði Rashid á blaðamannafundi. Niðurstöður frekari rannsókna á veikindum Arafats er að vænta á miðvikudag. Arafat var fluttur í skyndingu á hersjúkrahúsið í París en hann hafði þá legið þungt haldin í tvær vikur. Í fyrstu var því haldið fram að forsetinn þjáðist af slæmri flensu. Heilsu hans hrakaði sífellt og var hann því fluttur til Parísar til lækninga. Yfirlýsing Rashids þykir afdráttarlausari en sú sem Leila Shahid, sendifulltrúi Palestínumanna í Frakklandi, gaf fyrr í dag. Shahid sagði að læknar hefðu útilokað, í bili að minnsta kosti, að Arafat þjáðist af hvítblæði. Shahid svaraði ekki spurningum blaðamanna um hvað orðalagið "í bili að minnsta kosti" þýddi. Hún bætti við að Arafat væri öllu hressari nú, bæði líkamlega og andega og rannsóknir lækna gæfu ekki til kynna að forsetinn þjáðist af neinum alvarlegum sjúkdómi.
Leila Shahid sendifulltrúi Palestínumanna í Frakklandi sagði að læknar hefðu útilokað, í bili að minnsta kosti, að Arafat þjáðist af hvítblæði.MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×