Erlent

Aðkilnaður frá Serbíu líklegur

Lýðræðislegar kosningar fóru í dag fram í Kósóvó. Allar líkur eru á að þær leiði að lokum til aðskilnaðar frá Serbíu.  Þetta er í annað sinn frá því að stríðinu í Kósóvó lauk sem frjálsar og lýðræðislegar kosningar fara fram í landinu. Hundruð þúsunda streymdu á kjörstaði víðsvegar í héraðinu en stór hluti serbneska minnihlutans hélt sig fjarri, af ótta við þjóðernissinna úr eigin röðum sem hótuðu þeim sem tækju þátt í kosningunum, og svo til að mótmæla kosningunum. Níutíu prósent íbúa Kósóvó eru Albanar, þó að héraðið tilheyri Serbíu, og ljóst er að Albanar verða sigurvegarar kosninganna sem að líkindum munu leiða til aðskilnaðar frá Serbíu. Árni Snævarr blaðamaður starfaði fyrir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í Kósóvó þar til nýlega. Spurður hvort lýðræðið sé að festa sig í sessi með kosningunum eða hvort verið sé að kveikja í sprengiþræðinum að púðurtunnunni segir hann að lýðræðið sé vissulega við það að festa sig þarna í sessi. Ekkert sé að framkvæmd kosninga í Kósóvó, meirihluti kjósi þing og svo framvegis. „Hins vegar er Kósóvó nánast nýlenda vestrænna ríkja. Ef lýðræðið hefði fest sig í sessi í Kósóvó væru Kósóvó-Albanir nú að kjósa um hvort þeir væru sjálfstæðir eða ekki. Þetta er hins vegar spurning sem vestræn ríki hafa ekki viljað svara í fimm ár og það hlýtur að fara að koma að því að þeir geri það,“ segir Árni og bætir við að eitt af því sem vanti upp á lýðræðið í Kósóvó sé að borin sé virðing fyrir minnihlutanum, Sebum, sem eru aðeins tíu prósent íbúanna. Árni segir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sinna því að kenna Kósóvó-Albönum lýðræði, en hún vilji samt ekki leyfa þeim að segja lýðræðislega hvort þeir vilji aðskilnað frá Serbíu eða ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×