Viðskipti innlent

Rekstrarbati hjá Nýherja

Nýherji skilaði 27 milljón króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi í ár. Þetta er nokkur viðsnúningur frá fyrri hluta ársins þegar tap var á rekstrinum. Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, segir að félagið hafi orðið vart við upptakt í upplýsingatæknigeiranum á síðustu misserum og að fyrirtæki hugi nú að uppfærslu upplýsingakerfa á ný. Mikil ládeyða var í slíkum viðskiptum undanfarin þrjú ár eða svo. "Við teljum að það sé að verða viðsnúningur á upplýsingatæknimarkaði. Það er í samræmi við það sem er að gerast erlendis og einnig í samræmi við kannanir rannsóknarfyrirtæja um hvað sé að gerast á þessum markaði. Við teljum að það sé svipuð þróun í gangi hér á landi," segir hann. Hann segir að Nýherji hafi vaxið um þrjátíu prósent frá sama tíma í fyrra og þar af sé stærstur hluti vaxtarins kominn til vegna aukningar í kjarnastarfsemi fyrirtækisins en ekki með uppkaupum á öðrum fyrirtækjum. Meðal verkefni sem Nýherji fæst nú við er uppsetning á hátæknisamfélagi fyrir 101 Skuggahverfi. Því til viðbótar má nefna að Nýherji hefur samið við mörg stór fyrirtæki um uppsetningu hugbúnaðar. Má þar nefna KB banka og Eimskipafélagið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×