Skoðun

Kennararnir, Ásta og heimavinnan

Viðbrögð við verkfalli - Jóhann Björnsson Ýmislegt bendir til þess að stjórnmálamenn séu stór börn. Bæði börn og stjórnmálamenn hafa gaman af því að fara í ýmiss konar leiki. Þessi leikjaáhugi stjórnmálamannana kemur ekki síst fram um þessar mundir í kjaradeilu sveitarfélaganna við kennara. Sá leikur sem er vinsæll hjá stjórnmálamönnunum um þessar mundir er feluleikur. Feluleikur þessi sem stjórnmálamennirnir stunda felst í því að hverfa á braut um leið og vitað er til þess að einhver kennari eða kannski foreldri barna á grunnskólaaldri þurfi að ná tali. Þá getur nú verið gott að eiga marga felustaða hérlendis sem erlendis. Þeir leika því annan leik nú en þeir gera fyrir kosningar þegar þeir fara í eltingarleik og reyna að klukka sem flesta kjósendur. Þá fær maður hvorki frið á heimili né vinnustað fyrir vel greiddum, snýttum og skeindum stjórnmálamönnum með endalausan loforðalista um betri tíð með blóm í haga. Annar leikur sem er ekki síður vinsæll hjá stjórnmálamönnum er "órökstuddi frasaleikurinn". Þessi leikur felst í því að segja eitthvað rosalega töff og flott og setja punkt fyrir aftan án þess að nokkur rök fylgi máli. Fjölmiðlamenn eru ansi duglegir í að viðhalda þessum "órökstudda frasaleik" með því að biðja hvorki um rök né ástæður fyrir því sem sagt er. Ágætt dæmi um stjórnmálamann sem er fær í þessum "órökstudda frasaleik" er Ásta Möller, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Í Fréttablaðinu 13. október sl. er hún spurð að því hvernig leysa skuli kennaradeiluna eins og Fréttablaðið kemst að orði en mætti allt eins kalla sveitarfélagadeiluna. Að sjálfsögðu stendur ekki á svari frekar en hjá öðrum stjórnmálamönnum enda felst leikurinn í því að betra er að svara einhverju heldur en engu, hvort sem eitthvað vit er í svarinu eður ei. Og í svari sínu segir hún m.a.: "Það skortir kannski helst á að kennarar hafi unnið heimavinnuna áður en þeir fóru út í kjarabaráttu". Ekki ætla ég að leggja mat á það hvort kennarar unnu heimavinnuna sína eða ekki. Hins vegar sakna ég þess að Ásta færi lesendum rök fyrir því á hvern hátt kennarar svikust um að vinna heimavinnuna fyrir margumtalaða kjarabaráttu. Hún segir ekkert meira um umrædda heimavinnu kenara. Lesendur eiga heimtingu á því að stjórnmálamenn sem hafa skoðanir á öllum sköpuðum hlutum færi rök fyrir því sem þeir segja og það er mín skoðun að gagnrýnir blaðamenn eigi að spyrja viðmælendur sína um rök og ástæður þess sem þeir segja. Ýmsa aðra leiki mætti nefna sem stjórnmálamenn leika nú um þessar mundir eins og "mér kemur málið ekki við"-leikinn og "já þýðir nei og nei þýðir já"-leikinn. Ekki verður farið í að útlista nánar þessa skemmtilegu leiki né aðra leiki sem stjórnmálamenn iðka. Einn leikur sem stjórnmálamenn eru flinkir í er reyndar ekki stundaður um þessar mundir og það er "grátbiðja um stuðning"-leikurinn. Til þess er of langt í kosningar. <I>Höfundur er kennari í Réttarholtsskóla.<P>



Skoðun

Sjá meira


×