Viðskipti innlent

Bjóst við meiri hækkun

Ef Decode nær að þróa og markaðssetja hjartalyfið DG031 mun það hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins í framtíðinni. Fréttir um að öðrum fasa lyfjaþróunar væri lokið ollu snarpri hækkun á verði hlutabréfa í fyrirtækinu á Nasdaq markaðinum í gær. Hlutabréfin hækkuðu töluvert í viðskiptum fyrir opnun kauphallarinnar í New York en gengu að miklu leyti til baka eftir því sem leið á daginn. Töluvert mikil viðskipti voru með bréfin í gær. Að sögn Guðmundu Óskar Kristjánsdóttur hjá greiningardeild Landsbankans kom á óvart að bréfin hafi ekki hækkað meira og vísar hún til þess að í september hafi hlutabréf í Atherogenics hækkað um áttatíu prósent í kjölfar áþekkra frétta. Hugsanlega skýrist það af því að stofnanafjárfestar hafi litið til fréttanna sem tækifæris til að koma bréfum í Decode í verð. Þá kom það fram í Hálf fimm fréttum KB banka í gær að síðasti fasi lyfjaþróunar, sem ekki er enn kominn í gang, sé sá dýrasti og umfangsmesti og líklegastur til að sigla þróunarferlinu í strand. Þetta kunni að skýra hófstillt viðbrögð fjárfesta við tíðindunum. "Þeir eru komnir mjög langt þótt stærsti hjallinn sé enn þá eftir. Eftir fasa þrjú koma svo leyfisumsóknir, markaðssetning og sala lyfsins. Þá verða þeir búnir að breyta vísindalegri niðurstöðu í viðskiptalegt tækifæri og þar liggja miklir tekjumöguleikar," segir Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×