Skoðun

Þá hlógu sjálfstæðismenn

Sagt er að kötturinn hafi níu líf. Eitt fyrir hvern dag vikunar og tvö til vara. Eitt undarlegasta fyirbæri íslenskra stjórmála, Framsóknarflokkurinn, er enn lífseigari. Hann gæti þess vegna haft tólf. Eitt fyrir hvern mánuð ársins. Það sem hann hefur líka umfram gæludýrið, er að lífin hans endurnýjast sífellt. Með öðrum orðum, hann er ódauðlegur, eins og svo margt frá liðnum öldum sem við vildum að aldrei hefði verið til. Flokkurinn hefur marg sannað með þessari endalausu tilvist sinni, að það lifir lengst sem lýðum er leiðast. Allir vita að líf sitt á flokkurinn undir áframhaldandi mismunun gagnvart kjósendum við kjörkasana og örfáum auðtrúa sálum. Bæta má þeim við sem fæddust inn í flokkinn og álíta hann höfuðból sitt. Ekki má gleyma sígildum áhangendum allra flokka, tækifærissinnunum, en í þeim efnum býr Framsókn langt umfram aðra. Ein skærasta stjarnan í þingliði Framsóknar, er ung kona sem rekst svo vel í flokknum, að fá eða engin dæmi eru um svo auðsveipan og annars hugar fulltrúa þjóðarinnar. Fyrir formann flokksins er hún hrein gersemi sem hann hugsar fyrir. Fyrsta yfirlýsing hennar eftir kosningar var sérlega fjandsamleg náttúru landsins og auðvitað í anda foringjana. Þar var hún að þjóna hagsmunum skotvísfélaga, áhrifamanna í flokknum. Það gefur auga leið að hún fylgdi forustunni gegn kynsystrum sínum í einu kyndugasta stríði sem foringi stjórmálaflokks hefur háð sjálfum sér til vegsauka. Sagt er að Gengis Khan hafi látið menn sína gera lifandi útsýnispall sem hann brölti svo upp á til að sjá hvernig landið lægi. Nú er öldin önnur og ósvífnir herforingjar og pólitíkusar nota sér fólkið frekar sem peð á borði stjórnmálana. Þar er því skákað til og frá eftir gangi leiksins. Langt er síðan þjóðin vissi að heitasta ósk formanns Framsóknar, var að verða forsætisráðherra. Þá ósk lofaði formaður Sjálfstæðisflokksins að uppfylla, en með ströngum skilyrðum. Þau voru kosningabandalag og afsal ráðuneytis. Formaður Framsóknar gleypti agnið og þá hlógu sjálfstæðismenn. Í loftinu lágu tapaðar kosningar og augljóst að nú dygði ekki að biðja Guð að hjálpa sér. Stjórnarliðarnir vissu að almættið gat ekki, flestra hluta vegna, verið þeirra megin. Þá var bara að fletta í loforðabókinni og láta vaða í sama knérunn. Nú varð að lofa hinu og þessu og afsaka hitt og þetta. Slagorðin, fólk í fyrirrúmi, var gatslitið og stórhættulegt að minnast á vegna nauðsynlegra vanefnda. Þá varð síðasta hálmstráið að breyta útliti formanns Framsóknar í bland við hástemda loforðasúpu. Armæðusvipurinn var látin víkja fyrir brosi sem skipti sköpum í kosningunum. Svo áhrifamikilla brosa gætir ekki í íslenskri sögu. Á söguöld brosti Snorri goði reyndar þegar honum var skemmt, en Grettir og Skarphéðinn glottu þegar bardaga var von. Nokkrir landar mínir urðu svo hvumsa við brosleg loforð formannsins, að þeir gleymdu að hugsa og kusu hann. Þú tryggir ekki eftirá, segja tryggingafélögin. Örfáar sálir lögðu það helsi á þjóðina að hafa yfir sér forsætisráðherra sem hún vildi síst af öllum. Hann er fyrsti forsætisráðherrann sem ekki er kosin af þjóðinni. Hann var vélaður inn á hana. Nú þarf hann ekki að brosa næstu árin, frekar en hann vill. Höfundur er trésmiður



Skoðun

Sjá meira


×