Skoðun

Þjóðernisöfgar á Íslandi

Ásgeir Hannes Eiríksson, fyrrverandi þingmaður Borgaraflokksins, sem skolaði inn á þing í skjóli Alberts Guðmundssonar heitins, skipaði sér í raðir snoðinkolla og almennra sullukolla í viðtali við DV á þriðjudag þegar hann boðaði stofnun stjórnmálaflokks til höfuðs innflytjendum á Íslandi en hann á víst sitthvað sökótt við útlendan mann. Ef hér væru ekki stórhættulegar hugmyndir á ferðinni væri auðvitað bara fyndið að Ásgeir Hannes boði nú enn eina atlöguna að þingsæti en það virðist vera meira framboð af sumu fólki en eftirspurn. Ásgeir Hannes telur auðvelt að stofna slíkan fasískan flokk og segir þúsundir manna bíða heima í stofu eftir að hann smelli fingri sínum eins og hann orðar það. Eftir að hafa gert sig breiðan á síðum DV og nánast útnefnt sjálfan sig sem bjargvætt Íslands, kannski misskilinn bjargvætt en bjargvætt samt, stillir hann sér svo upp við hlið danska rasistans Mogens Glistrup og norska þjóðernisöfgamannsins með barnsandlitið Carl I. Hagen, en magnaðri lýðskrumarar eru vandfundnir á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Sem betur fer hafa þjóðernisöfgasinnar ekki enn náð að festa djúpar rætur á Íslandi þótt nokkrir kjánar hafi stundum flotið upp á yfirborðið með einhverju asnalegu rasistarausi a la Glistrup og Hagen. Enda auðga innflytjendur mannlífið ef rétt er á málum haldið og ef við leitum á náðir hagfræðinnar kemur í ljós að innflytjendur eru þjóðhagslega hagkvæmir en ekki efnahagsleg byrði. En sumir sjá ógnir í öllum hornum, hræðast hið ókunna og umvefja sig heimóttarlegum einangrunarhugmyndum í stað þess að taka heiminum opnum örmum og öllum þeim ólíku blæbrigðum sem mannkynið hefur uppá á að bjóða. Svo ættu menn nú líka að forðast í lengstu lög að leita leiðsagnar í innflytjendamálum til Danmerkur, eins og við höfum þegar gert alltof mikið af. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra hefur nefnilega tekist að breyta hinni frjálslyndu Danmörku í hálfgert fasistaríki og lokað landinu fyrir útlendingum með risastórum slagbrandi og þvergirðingu hringinn í kringum eyjarnar og hafna á milli. Annars er þetta nú kannski lítið skárra hér á Íslandi því eins og Danir höfum við reist allt of háan haftamúr, verkefnið er miklu heldur að opna landið, enda vantar okkur fleira fólk ef eitthvað er - ekki færra. Þeir örfáu sem inn hafa sloppið hafa auðgað landið okkar, til að mynda með seiðandi tónlist og dunandi dansi. Þá má nefna að Íslendingar fengu lítið annað en saltfisk að borða áður en miðbærinn fylltist af framandi veitingastöðum sem bjóða upp á taílenskar núðlur, spænska tapasrétti, tyrkneskt kebab, kínverskar risarækjur, mexíkóskt fajitas og japanskt sushi svo eitthvað sé nefnt. En kannski að lífið sé saltfiskur.



Skoðun

Sjá meira


×